Lífið

Stuðningsmenn landsliðsins safnast saman á Ingólfstorgi, Akureyri og í Færeyjum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Ingólfstorgi á þriðjudaginn í seinustu viku þegar Íslendingar mættu Portúgölum.
Frá Ingólfstorgi á þriðjudaginn í seinustu viku þegar Íslendingar mættu Portúgölum. vísir/hanna
Það má eiginlega segja að þjóðfélagið sé á yfirsnúningi þessa stundina vegna landsleiks Íslands og Austurríkis á EM í knattspyrnu sem hefst núna klukkan 16. Það má búast við því að stór hluti þjóðarinnar sitji límdur við sjónvarpið þegar flautað verður til leiks og þá eru þúsundir Íslendinga samankomnir á Stade de France, þjóðarleikvangi Frakka í París, til þess að styðja við strákana okkur.

Þeir sem vilja njóta veðurblíðunnar og horfa á leikinn um leið geta lagt leið sína á Ingólfstorg þar sem komið hefur upp EM-torgi með risaskjá til þess að sýna leikinn. Fólk hefur safnast þar saman fyrir fyrri leikina tvo í riðlinum og þá hefur einnig verið komið upp risaskjá á Ráðhústorginu á Akureyri líkt og á laugardaginn.

„Það er sól og blíða svo við búumst alveg við góðri mætingu. Við gerum engar sérstakar ráðstafanir en fylgjumst auðvitað með,“ segir Jóhann Olsen, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri.

Þá halda Færeyingar áfram að styðja vel við bakið á Íslendingum en þeir fögnuðu jafntefli Íslendinga við Portúgali innilega sem og marki Gylfa Þórs Sigurðssonar gegn Ungverjum, eins og sjá má hér að neðan. 

Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík vakti síðan athygli á því á Facebook-síðu sinni þegar verið var að koma upp risatjaldi í miðbæ Þórshafnar þar sem Færeyingar ætla að safnast saman og horfa á leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×