Lífið

Stuðningsmenn Hollands hengdu sig á íslenska landsliðið

Jakob Bjarnar skrifar
Myndband þar sem stuðningsmenn Hollands biðla til Íslands hefur slegið í gegn á netinu, og Siggi Hlö er nú orðinn vel þekktur í Hollandi.
Myndband þar sem stuðningsmenn Hollands biðla til Íslands hefur slegið í gegn á netinu, og Siggi Hlö er nú orðinn vel þekktur í Hollandi.
Myndband sem systurstofa Pipars í Hollandi, hluti TBWA-auglýsingastofukeðjunnar, gerði fyrir hönd stuðningsmanna hollenska landsliðsins, hefur slegið í gegn á netinu. Það hefur verið uppi nú í rúma þrjá tíma og nú þegar eru komin 260 þúsund sem hafa horft á myndbandið. Sem er talsvert.

Myndbandið er enda allsérstætt því kvikmyndatökumenn frá Hollandi komu til landsins, hengdu sig á íslenska landsliðið og fylgdu þeim út á flugvöll á á bíl þar sem heitið er á landsliðið; að það vinni nú Tyrkina á kvöld. Í lok myndbandsins birtist svo sjálfur Siggi Hlö og segir: Stuðningsmenn Hollands eru bestu stuðningsmenn í heimi.“

Útvarps- og auglýsingamaðurinn Siggi Hlö segir að þeir hafi reyndar klippt aftan af því sem hann sagði. „Ég sagði líka, eða næstbestir. En þeir klipptu það út. Svo þetta liti betur út í Hollandi. En já, það stefnir í að ég verði stórstjarna í Hollandi ef þetta heldur svona áfram,“ segir Siggi.

Siggi var Hollendingunum innan handar þá er þeir komu hingað og voru yfir helgina. Þeir leigðu bíl sem þeir útbjuggu með sérstöku skilti, voru fyrir utan Hilton-hótelið og eltu svo rútu leikmanna alla leið út á Leifsstöð, eins og sjá má í myndbandinu.

„Já, nú verða Hollendingar að treysta á Ísland til að eiga möguleika á að komast í umspil. Þeir eru að biðla til „stóra“ liðsins í riðlinum, að sigra nú Tyrkina. Það kom í fréttum í gær að að Alfreð Finnbogason tók mynd af þessum bíl og setti á Twitter. hann var markahæstur í Hollandi fyrir tveimur árum og er stórt nafn þar. „Hafið engar áhyggjur, við reddum þessu,“ skrifaði Alfreð. Tyrkirnir tjúlluðust og eru ekki eins ánægðir með Alfreð og Hollendingarnir,“ segir Siggi sem er spenntur fyrir leiknum í kvöld.


Tengdar fréttir

Alfreð: Ég gerði ekkert rangt

Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason náði heldur betur að kveikja í stuðningsmönnum tyrkneska landsliðsins áður en hann hélt til Tyrklands.

Alfreð fær hótanir á Twitter

Sagði hollenska stuðningsmenn ekki þurfa að óttast og fékk bágt fyrir hjá tyrkneskum knattspyrnuáhugamönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×