Fótbolti

Stuðningsmaður Viking segir Jón Daði álíka mjúkan á boltann og steypu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði Böðvarsson gæti verið á leið til Kaiserslautern í Þýskalandi.
Jón Daði Böðvarsson gæti verið á leið til Kaiserslautern í Þýskalandi. mynd/viking-fk.no
Kaiserslautern er búið að bjóða aftur í Jón Daða Böðvarsson. Hvað á Viking að gera?“

Að þessu spyr Hans Petter Jörgensen, stuðningsmaður norska úrvalsdeildar liðsins Viking í Stavanger, í pistli sem hann skrifar á vefsíðu Aftonbladet. Jörgensen er fastur pistlahöfundur um uppáhaldsliðið sitt.

Nú þegar er klárt að Viking er að missa einn sinn besta mann undanfarin ár, Veton Berisha, og Jörgensen óttast að Viking sökkvi eins og Titanic í haust verði báðir seldir, eins og hann orðar það.

Hann segir peninginn sem Viking fái fyrir Jón Daða líklega bæta upp fyrir það, að liðið mun hrapa niður úr Evrópubaráttunni í deildinni og falla úr leik í bikarnum. Liðið er í þriðja sæti í úrvalsdeildinni norsku og komið í átta liða úrslit bikarsins.

„Spurningin er: Hvað er það sem við missum ef við seljum Böðvarsson?“ spyr Jörgensen.

„Við höfum séð brot af því hversu góður hann getur orðið en löngum stundum er hann jafnmjúkur á boltann og steypa,“ segir hann.

Jörgensen segir það mikinn missi að Berisha sé að fara en hann er óviss um hvort liðið muni sakna Jóns Daða.

„Það eina sem er klárt er að við getum fengið 2-3 milljónir fyrir hann núna í staðinn fyrir ekkert eftir hálft ár,“ segir Jörgensen, en samningur Jóns Daða rennur út í lok ársins.

„Besta lausnin er þessi: Ef liðið getur fengið reyndan framherjan á láni út tímabilið ætti það að selja Böðvarsson. Ef það er ekki hægt á Jón Daði að vera hjá okkur út árið.“

„Framherji sem vill sýna sig fyrir framtíðar atvinnurekendum sínum og landsliði sem er á leið á EM ætti ekki að vanta hvatningu,“ segir Hans Petter Jörgensen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×