Innlent

Stuðningsfulltrúinn áfram í gæsluvarðhaldi - ákærður fyrir ítrekuð og langvarandi kynferðisbrot

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Húsnæði Landsréttar.
Húsnæði Landsréttar. Vísir/Hanna
Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir stuðningsfulltrúa hjá Reykjavíkurborg sem ákærður er fyrir kynferðisbrot gegn fjórum börnum og einum andlega fötluðum manni. Hann er grunaður um þrjú brot til viðbótar sem enn eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Maðurinn verður því í gæsluvarðhaldi til 11. maí hið minnsta.

Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, sé ákærður fyrir ítrekuð og langvarandi kynferðisbrot gegn börnum og fyrir nauðganir. Brotin geti varðað allt að sextán ára fangelsi. Að mati ákæruvaldsins séu brotin þess eðlis að nauðsynlegt sé, með tilliti til almannahagsmuna, að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans séu til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum. Ætluð brot ákærða séu þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að hann gangi laus meðan mál hans séu til meðferðar.

Verjandi mannsins mótmælti gæsluvarðhaldsúrskurðinum á þeim forsendum að ekki hafi verið ákært öll þau meintu brot sem voru til rannsóknar hjá lögreglu, því verði hver ákæruliður fyrir sig að uppfylla skilyrði um almannhagsmuni.

Í úrskurðinum segir hins vegar að ákæra hafi verið gefin út í málinu þar sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn fimm börnum og geti hvert brot varðað allt að sextán ára fangelsi. Sjónarmið kærða um að ekki hafi verið ákært fyrir öll þau brot sem voru til rannsóknar breytir engu þar um.

 

Úrskurður Landsréttar


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×