Innlent

Stúdentar skora á þingmenn að afgreiða LÍN-frumvarpið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skora á þingmenn að afgreiða LÍN-frumvarpið.
Skora á þingmenn að afgreiða LÍN-frumvarpið. vísir/ernir
Formenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), Félags Stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA), Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) og Nemendasambands Tækniskólans (NST) hafa skorað á þingmenn að klára frumvarp um námslán og námsstyrki, svokallað LÍN-frumvarp á yfirstandandi þingi.

„Stúdentar munu ekki una því að bíða til næsta kjörtímabils eftir endurbótum á námsaðstoðarkerfinu. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frumvarp er risastórt skref í átt að því námsaðstoðarkerfi sem við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hefur í för með sér þau atriði sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, til að mynda fyrirframgreiðslur, beina námsstyrki og 100% framfærslu,“ segir í yfirlýsingu frá félögunum fjórum.

Frumvarpið hefur verið afar umdeilt bæði hjá hagsmunaaðilum sem og á stjórnmálasviðinu en undanfarið hefur það verið í vinnslu hjá Allsherjar- og menntamálanefnd þar sem það hefur tekið töluverðum breytingum. Hefur stjórnarandstaðan gefið það út að hún muni standa í vegi fyrir því að frumvarpið verði samþykkt. Skora félögin á stjórnarandstöðuna að hætta við þessi áform sín.

„Að þessu sögðu skorum við á stjórnarandstöðuna að leggja kosningaslaginn til hliðar og hlusta á stúdenta, sem eru langþreyttir á því að vera notaðir í pólitískum leikjum á milli stjórnmálaflokka. Við krefjumst þess að málið fari á dagskrá og verði tekið fyrir í 2. umræðu sem allra fyrst,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá vilja félögin að lögð verði fram og samþykkt þingsályktunartillaga um að haldið verði áfram að vinna að málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna á næsta kjörtímabili og að stúdentar verði hafðir með í ráðum.

Áskorun SHÍ, FSHA, SFHR og NST í heild sinni

„Formenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), Félags Stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA), Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) og Nemendasambands Tækniskólans (NST) skora hér með, fyrir hönd félaganna, á þingmenn stjórnarflokkanna jafnt sem stjórnarandstöðunnar að klára frumvarp um námslán og námsstyrki á þessu þingi.

Stúdentar munu ekki una því að bíða til næsta kjörtímabils eftir endurbótum á námsaðstoðarkerfinu. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frumvarp er risastórt skref í átt að því námsaðstoðarkerfi sem við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hefur í för með sér þau atriði sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, til að mynda fyrirframgreiðslur, beina námsstyrki og 100% framfærslu.

Við erum sammála um að þær breytingar sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að gerðar verði á frumvarpinu eru jákvæðar og að frumvarpið sé í heild sinni gífurleg kjarabót fyrir stúdenta.

Að þessu sögðu skorum við á stjórnarandstöðuna að leggja kosningaslaginn til hliðar og hlusta á stúdenta, sem eru langþreyttir á því að vera notaðir í pólitískum leikjum á milli stjórnmálaflokka. Við krefjumst þess að málið fari á dagskrá og verði tekið fyrir í 2. umræðu sem allra fyrst.

Jafnframt krefjumst við þess að lögð verði fram og samþykkt þingsályktunartillaga um að haldið verði áfram að vinna að málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna á næsta kjörtímabili og að stúdentar verði hafðir með í ráðum.

Fyrir hönd félaganna,

Davíð Snær Jónsson, formaður NST

Helga Margrét Mason Jóhannesdóttir, formaður FSHA

Kristófer Már Maronsson, formaður SHÍ

Rebekka Rún Jóhannesdóttir, formaður SFHR“ 


Tengdar fréttir

Skulda LÍN mest en hafa ekki borgað krónu til baka á 9 árum

Þeir tuttugu sem skulda LÍN mest skulda samtals 690 milljónir. LÍN býst við því að fá 92 milljónir til baka frá hópnum en restin verður í raun afskrifuð. Flestir í hónum luku námi fyrir meira en tíu árum og þar af tveir á síðustu

Mikil skekkja í framfærslu námsmanna

Lán til íslenskra námsmanna í tuttugu fjölmennustu löndum meðal umsækjenda LÍN voru að meðaltali um tuttugu prósent umfram framfærsluþörf við gerð úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2014 til 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×