Lífið

Stríð innan Skálmaldar: Lætur kambinn fjúka

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Gunnar Ben, lengst til vinstri á myndinni er efstur sem stendur.
Gunnar Ben, lengst til vinstri á myndinni er efstur sem stendur. Mynd/Lalli Sig
„Það er stríð innan sveitarinnar og mikil keppni en menn er þó misvirkir í henni,“ segir Gunnar Ben, hljómborðsleikari Skálmaldar en hann er sem stendur efstur Skálmaldarmeðlima í áheitasöfnuninni fyrir Reykjavíkurmaraþonið á laugardag. Hinir geysivinsælu og geðþekku rokkarar í Skálmöld verða fulltrúar Íslandsbanka í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

„Ég ætla fórna kambinum ef ég næ þrjú hundruð þúsund krónum fyrir hádegi á morgun. Ég var í 161.000 krónum á hádeginu í dag og ég ætlaði að lita kambinn bleikan ef ég færi í 250.000 krónur, en það gerðist ekki neitt, þannig að fólk vill greinilega ekki bleikan kamb,“ segir Gunni Ben en hann ætlar að fórna sínum fræga kambi ef hann nær að safna þrjú hundruð þúsund krónum fyrir hádegi á morgun.

„Það hefur engin tónlistarleg áhrif að missa kambinn en ég hef verið lengur með hann heldur en ég hef verið í Skálmöld,“ segir Gunni Ben spurður út í mikilvægi kambsins.

Hann er sem stendur efstur af meðlimum sveitarinnar. „Þráinn er að sækja á mig hægt og rólega en ég hef fulla trú á að ég vinni þetta,“ segir Gunni Ben og hlær.

Hann segir tilhlökkunina mikla fyrir maraþonhlaupið. „Það er alvega merkilega lítill kvíði hjá okkur miðað við stemninguna í upphafi. Mér finnst ég bara nokkuð tilbúinn í þetta og ég er allavega hættur að hafa áhyggjur af því að komast ekki í mark.“

Þeir sem vilja sjá kambinn fjúka geta styrkt Gunna Ben hér.

Maraþonmennirnir: Skálmöld from Íslandsbanki on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×