Viðskipti innlent

Straumurinn enn til Noregs þrátt fyrir gengishrun

ingvar haraldsson skrifar
Bæði olíuverð og norska krónan hafa hríðfallið í verði.
Bæði olíuverð og norska krónan hafa hríðfallið í verði. fréttablaðið
Norska krónan hefur fallið um 35 prósent frá því þegar hún stóð hæst í ársbyrjun 2013. Þetta hefur haft mikil áhrif á þau fyrirtæki og einstaklinga sem unnið hafa í landinu síðustu árin. Ríflega 15 íslenskar krónur fást nú fyrir hverja norska krónu en 23 íslenskar krónur fengust í upphafi árs 2013.

„Lindin er að þorna upp,“ segir Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands. Hann segir nær allar íslensku verkfræðistofurnar hafa unnið að verkefnum í Noregi. Hjá sumum hafi 30-50 prósent af tekjunum orðið til þar í landi og fjöldi íslenskra verk- og tæknifræðinga sem unnið hafi í Noregi skipt hundruðum.

Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands segir olíukreppuna hafa mikil áhrif á íslenskar verkfræðistofur.
Verkefnum hafi fækkað verulega frá því olíuverð tók að falla sumarið 2014. „Samkeppnin fer mjög hratt harðnandi. Út af þessari fjarlægð okkar er kostnaðurinn fyrir íslensku verkfræðistofurnar að sinna þessum verkefnum mun meiri en fyrir þær norsku,“ segir Árni. Þá skipti skörp lækkun gengis norsku krónunnar á sama tíma og sú íslenska hafi verið að styrkjast einnig miklu máli.

Hann segist vita til þess að íslenskir verk- og tæknifræðingar séu farnir að flytja aftur til Íslands eftir að hafa verið sagt upp í Noregi.



Lítið um verkefni í olíuiðnaði


„Það er alveg ljóst að gengisþróunin hefur veruleg áhrif á okkar samkeppnisstöðu í Noregi, sérstaklega í verkefnum sem við vinnum frá Íslandi,“ segir Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Eflu verkfræðistofu. Í kjölfar olíukreppunnar hafi olíufyrirtækin dregið saman seglin. „Þá losnar stór hópur tæknifólks sem leitar þá líka í önnur störf og eykur þannig samkeppnina á markaðnum.“Guðmundur segir Eflu finna fyrir samdrættinum. „Verkefnum sem tengjast olíu hefur fækkað og er orðið mjög lítið um þau. Hins vegar höfum við sem betur fer verið á markaði þarna, sem ef eitthvað er hefur verið að eflast.“ Í því samhengi bendir hann á mikla innviðauppbyggingu sem Norðmenn hafa staðið að undanfarin ár.

Gunnar Pálsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Noregi segir Norðmenn vera að átta sig á því að þeir séu ekki lengur öðru vísi en aðrir.
Fleiri flytja til Noregs en aftur heim

Þrátt fyrir gengislækkunina virðist lítil breyting vera á flutningum fólks til Noregs. 290 fleiri Íslendingar fluttu til Noregs á fyrstu níu mánuðum þessa árs miðað við 382 allt árið í fyrra og 301 árið 2013. Sigurður R. Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá ÍAV, segir að fólksflutningar aftur til Íslands hafi ekki orðið í þeim mæli sem vonast hafi verið eftir. „Fólk er auðvitað búið að flytja, með fjölskylduna jafnvel, til útlanda og þá er þetta töluvert mál og menn gera það ekkert einn tveir og þrír.“ Engu síður muni talsvert um gengislækkunina fyrir þá sem fái greitt í norskum krónum og skipti þeim í íslenskar. „Á sama tíma hefur atvinnuástandið á Íslandi verið að batna mikið síðasta ár og rúmlega það.“



Ekki lengur öðruvísi land


Gengisfallið hefur helst verið rakið til lækkunar olíuverðs sem fallið hefur um 60 prósent frá því í júní árið 2014. Olíuiðnaðurinn nemur um tuttugu prósentum af landsframleiðslu Noregs og 27 prósentum af tekjum norska ríkisins. Þá hafa um 60 prósent af útflutningstekjum Norðmanna komið úr olíuvinnslugeiranum.

 „Norðmenn líkt og önnur ríki hafa þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Þeir litu stundum svo á að þeir væru eins og þeir kölluð sjálfir „anner­ledeslandet“, að þeir væru svolítið sér á báti, en við þessa atburði hefur skórinn kreppt að þeim, ekki síður en öðrum,“ segir Gunnar Pálsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Noregi.

Gunnar bendir á að verðfallið hafi haft mest áhrif í olíugeiranum sjálfum. „Verðfallið hefur orðið til þess að norsku olíufyrirtækin hafa dregið saman í starfsemi. Þau hafa dregið úr fjárfestingum og sagt upp starfsfólki í stórum stíl.“ Þetta hafi einnig haft mikil áhrif á fyrirtæki sem þjónusti olíuiðnaðinn, svo sem byggingar- og siglingageirarnir segir Gunnar.



Hafa áhyggjur af fasteignabólu


Norski seðlabankinn hefur brugðist við olíukreppunni með því að lækka stýrivexti í 0,75 prósent og hyggst lækka þá enn frekar á næsta ári. „Þeir hafa verið að lækka vexti til þess að reyna að örva neyslu í landinu til að koma í veg fyrir samdrátt á neytendamarkaði,“ segir Gunnar.

„Eitt af því sem gerist við svona vaxtalækkanir er auðvitað að það verður miklu meira framboð af ódýru lánsfé. Norsk stjórnvöld hafa áhyggjur af því að það geti kynt undir frekari fasteignabólu,“ segir hann en fasteignaverð í Noregi hafi hækkað mikið áður en olíukreppan hófst.

Taki fasteignaverð að lækka gæti norskur almenningur lent í vandræðum. „Þá verða þeir svolítið berskjaldaðir ef slær í bakseglin. Stór hluti fjölskyldna í Noregi er skuldum vafinn. Þá gæti fólk lent í erfiðleikum með að standa skil á afborgunum þegar vextir hækka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×