Lífið

Strandamaðurinn sterki hengir upp sundskýluna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hreinn Halldórsson er Strandamaðurinn sterki sem yfirgefur sundlaugina sem hann hefur stýrt í meira en þrjátíu ár. Hreinn tók sér sumarfrí í gær en þá var síðusti dagur sumarsins.
Hreinn Halldórsson er Strandamaðurinn sterki sem yfirgefur sundlaugina sem hann hefur stýrt í meira en þrjátíu ár. Hreinn tók sér sumarfrí í gær en þá var síðusti dagur sumarsins. Mynd/Heiða Málfríður
„Ég er ekkert að gefa upp andann,“ segir Hreinn Halldórsson, kúluvarparinn ástsæli, sem um áramótin lætur af störfum sem forstöðumaður íþróttamannvirkja Fljótsdalshéraðs.

„Mér bauðst annað starf vegna skipulagsbreytinga hjá bænum þannig að ég hoppa úr íþróttamiðstöðinni yfir á bæjarskrifstofur og mun sjá um mannvirki bæjarins,“ segir Hreinn um breytingarnar fram undan.

Úr strætó á sundlaugarbakkann

Hreinn átti afar farsælan feril sem kúluvarpari og var þrisvar útnefndur íþróttamaður ársins á Íslandi á árunum 1976 til 1979. Hreinn, sem er frá Hrófbergi á Ströndum og gengur undir nafninu Strandamaðurinn sterki, varð Evrópumeistari árið 1977.

Áður en Hreinn fluttist til Egilsstaða árið 1982 og tók við sundlaug bæjarins ók hann strætisvögnum í Reykjavík í um áratug. Þá hafði hann fengið brjósklos í bak sem batt enda á keppnisferil hans. „Ég fór í brjósklosaðgerð á Landspítalanum og sá bara sæng mína útbreidda; nennti ekki í sama farið og flutti úr bænum og austur,“ rifjar Hreinn upp.

Hreinn gekkst fyrir íþróttamótinu Strandamaðurinn sterki á Vilhjálmsvelli með aðstoða góðra manna í sumar. „Það má kannski segja að á þessari mynd sé ég í mínu rétta umhverfi,“ segir hann sjálfur.
Aldrei getað kvartað undan verkefnaskorti

Öll íþróttamannvirki Fljótsdalshéraðs heyra undir Hrein í núverandi starfi. Íþróttavellirnir munu fylgja honum áfram í nýja starfið. Núverandi forstöðumannsstarf hans var auglýst til umsóknar í vikunni og hann bíður eftirmannsins.

„Ég heyrði í þeim sem tekur við umsóknum og það er þegar farið að spyrjast fyrir um starfið,“ segir Hreinn, sem aðspurður kveður mikla vinnu fylgja forstöðumannsstarfinu.

„Þetta er eins og hjá bændunum; menn þurfa alltaf að vera til taks allan sólarhringinn. Ekki einn einasta dag hef ég getað leyft mér að kvarta undan því að ég hafi ekkert að gera,“ segir Strandamaðurinn sterki, sem finnst áratugirnir í sundlauginni hafa skotist hjá. „Ég er orðinn hundgamall og búinn að vera lengur en elstu menn muna – en samt hefur þetta liðið nokkuð fljótt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×