Fótbolti

Strákarnir okkar spila í Las Vegas í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna marki á móti Finnum á dögunum.
Íslensku strákarnir fagna marki á móti Finnum á dögunum. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Íslands hefur komist að samkomulagi við Knattspyrnusamband Mexíkó að karlalandslið þjóðanna mætist í vináttulandsleik í byrjun næsta ársins. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sambandsins.

Landsliðs Íslands og Mexíkó munu mætast miðvikudaginn 8. febrúar 2017 en spilaði verður á heimsþekktum stað í Bandaríkjunum.

Leikurinn mun nefnilega fara fram á Sam Boyd leikvanginum í Las Vegas í Bandaríkjunum.

Þjóðirnar hafa mæst tvisvar sinnum áður en báðir leikirnir voru vináttuleikir. Fyrri leikurinn var árið 2003 og sá síðari var árið 2010. Báðir leikirnir enduðu með markalausu jafntefli og nú er bara spurning hvort markið detti ekki loksins inn í Las Vegas.

Íslenska landsliðið hefur spilað landsleiki í byrjun ársins undanfarin ár en þá eru sterkustu leikmenn liðsins uppteknir með sínum atvinnumannaliðum og íslensku landsliðsþjálfararnir hafa notað þessa leiki til að stækka hópinn.

Þessi leikur á móti Mexíkó í Las Vegas verður fyrsti landsleikur ársins en íslenska liðið mætir síðan Kosóvó og Írlandi í mars. Leikurinn við Kosóvó er í undankeppni HM 2018 en hinn er vináttulandsleikur í Dyflinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×