Fótbolti

Strákarnir okkar aldrei verið ofar á heimslistanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir okkar eru sem fyrr langbestir á Norðurlöndum og nú betri en Tyrkir.
Strákarnir okkar eru sem fyrr langbestir á Norðurlöndum og nú betri en Tyrkir. vísir/ernir
Íslenska landsliðið í fótbolta verður í 21. sæti á heimslista FIFA þegar nýr listi verður birtur á fimmtudaginn í næstu viku. Það stekkur upp um sex sæti en á síðasta lista var Ísland númer 27 á listanum.

Sem fyrr er það spænski tölfræðingurinn Alexis Martín sem reiknar út stöðu 60 efstu liðanna og birtir niðurstöðuna á undan FIFA á Twitter-síðu sinni, en Spánverjanum skeikar aldrei um eitt stig.

Strákarnir okkar hafa aldrei verið ofar á listanum en þeir bæta eigið met um eitt sæti. Ísland stökk upp um tólf sæti eftir Evrópumótið í Frakklandi þar sem það kom allri álfunni á óvart og endaði á meðal átta efstu, en eftir EM í Frakklandi var Ísland í 22. sæti.

Íslenska liðið fór aðeins að síga niður listann eftir EM en það var í 27. sæti þegar kom að síðustu landsleikjaviku sem kláraðist formlega í gær. Þar innbyrtu strákarnir okkar tvo sigra á Finnum og Tyrkjum og skjótast nú upp um sex sæti.

Þegar Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við íslenska landsliðinu var það í miklum vandræðum og fór neðst niður í 131. sæti heimslistans. Tvíeykið Lars og Heimir kom liðinu í 22. sætið með frábærum árangri á EM en nú er Heimir búinn að gera enn betur og ná bestu stöðu á listanum í sögu landsliðsins.

Sem fyrr eru strákarnir okkar konungar norðursins en þeir eru ekki bara efstir af Norðurlandaþjóðunum heldur langefstir. Svíar fara upp um tvö sæti og sitja í 39. sæti en Danir fara niður um sex sæti og eru í 50. sæti á nýjum lista. Noregur, sem var í 70. sæti á síðasta lista, og Finnar, sem voru númer 85, eru ekki á topp 60 frekar en Færeyingar.

Ísland er einnig orðið næst besta liðið í I-riðli undankeppni HM 2018 en á meðan okkar menn fara upp um sex sæti fara Tyrkir niður um fjögur í 25. sæti. Tyrkland var í 21. sæti fyrir síðustu landsleikjaviku en íslenska liðið skýst nú upp fyrir Tyrki eftir glæsilegan 2-0 sigur á þeim.

Króatía er sem fyrr efst af liðunum í riðli Íslands. Króatíska liðið er í 16. sæti heimslistans og mætir Íslandi í byrjun nóvember í uppgjöri um efsta sæti riðilsins í undankeppni HM 2018. Úkraína er í 29. sæti en Kósóvó og Finnland eru ekki á meðal 60 efstu liða heimslistans.

Argentína heldur toppsætinu en Þjóðverjar taka annað sætið af Belgum sem falla niður í það fjórða. Brasilía heldur áfram að sækja í sig veðrið en Brassar fara upp um eitt sæti í það þriðja. England heldur sinni stöðu í 12. sæti heimslistans.

Topp tíu:

1. Argentína

2. Þýskaland

3. Brasilía

4. Belgía

5. Kólumbía

6. Síle

7. Frakkland

8. Portúgal

9. Úrúgvæ

10. Spánn


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×