Handbolti

Strákarnir hans Kristjáns í 8-liða úrslit eftir 19 marka stórsigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján fagnar.
Kristján fagnar. vísir/epa
Svíar eru komnir í 8-liða úrslit á HM í Frakklandi eftir stórsigur á Hvít-Rússum, 22-41, í Lille í dag.

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar hafa því unnið fimm af sex leikjum sínum á HM. Eina tapið kom gegn Dönum í riðlakeppninni.

Svíar mæta Frökkum í 8-liða úrslitunum í Lille á þriðjudagskvöldið.

Eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir sænska liðsins gríðarlega miklir. Staðan í hálfleik var 11-24, Svíþjóð í vil. Skotnýting Svía í fyrri hálfleik var rúmlega 80%.

Hvít-Rússar héldu í við Svía fyrstu mínúturnar en í stöðunni 4-4 breyttist allt. Sænska liðið skoraði átta mörk gegn tveimur og bjó til gott forskot sem það hélt út leikinn.

Leikurinn var aðeins jafnari í seinni hálfleik en úrslitin voru löngu ráðin. Á endanum munaði 19 mörkum á liðunum, 22-41.

Jim Gottfridsson var markahæstur í sænska liðinu með átta mörk í jafnmörgum skotum. Niclas Ekberg kom næstur með sjö mörk.

Báðir markverðir Svíþjóðar vörðu frábærlega í leiknum. Andreas Palicka tók 11 bolta (50%) og Mikael Appelgren átta (42%).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×