Handbolti

Strákarnir hans Guðmundar voru prúðastir en strákar Dags grófastir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson talar við dómarann í Slóveníuleiknum en sá hinn sami er með rauða spjaldið á lofti.
Dagur Sigurðsson talar við dómarann í Slóveníuleiknum en sá hinn sami er með rauða spjaldið á lofti. Vísir/EPA
Landslið Danmerkur og Þýskalands voru á sitthvorum enda listans yfir refsistig liða í riðlakeppni Evrópumótsins í handbolta í Póllandi sem lauk í gærkvöldi.

Danska liðið, sem er undir stjórn Íslendingsins Guðmundar Guðmundssonar, getur kallað sig prúðasta lið riðlakeppninnar því  liðið fékk fæst refsistig.

Lið fá refsistig fyrir gul spjöld, rauð spjöld og tveggja mínútna brottvísanir. Mótshaldarar taka saman tölurnar og birta listann á heimasíðu sinni. Liðin fá eitt refsistig fyrir gult spjald, tvö refsistig fyrir brottvísun og fimm refsistig fyrir rautt spjald.

Danir fengu 9 gul spjöld en ekkert rautt spjald og aðeins sex brottrekstra í leikjunum þremur. Strákarnir hans Guðmundar voru því bara manni færri í tólf mínútur af 180 í riðlakeppninni eða aðeins sjö prósent leiktímans.

Danska liðið var því bara með 21 refsistig eða átta færri en næstprúðasta liðið sem var lið Ungverjalands.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu létu aftur á móti finna vel fyrir sér í riðlinum og voru það lið sem fékk flest refsistig og því titilinn grófasta lið riðlakeppninnar.

Þýska liðið fékk alls 57 refsistig eða fjórum fleira en næstgrófasta liðið sem var Serbía. Þjóðverjar fengu 9 gul og 2 rauð spjöld og voru 19 sinnum reknir útaf í tvær mínútur í þessum þremur leikjum.

Íslenska liðið var sjöunda grófasta lið riðlakeppninnar með 9 gul spjöld, ekkert rautt spjald og sextán brottrekstra.



Fæst refsistig í riðlakeppni EM 2016:

1. Danmörk 21

2. Ungverjaland 29

3. Svartfjallaland 31

4. Rússland 32

5. Makedónía 35

6. Frakkland 37

6. Noregur 37

8. Svíþjóð 39

Flest refsistig í riðlakeppni EM 2016:

1. Þýskaland 57

2. Serbía 53

3. Króatía 51

4. Slóvenía 49

4. Hvíta Rússland 49

6. Pólland 42

7. Ísland 41

8. Spánn 40




Fleiri fréttir

Sjá meira


×