Handbolti

Strákarnir hans Arons geta náð 30 leikja markinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson þjálfar einnig íslenska landsliðið í handbolta.
Aron Kristjánsson þjálfar einnig íslenska landsliðið í handbolta. Vísir/AFP
Lið KIF Kolding frá Kaupmannahöfn á möguleika á því að spila sinn 30. leik í röð án taps í kvöld þegar liðið mætir Team Tvis Holstebro í Gråkjær Arena í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Aron Kristjánsson þjálfar danska liðið sem er á toppnum í dönsku úrvalsdeildinni með 12 sigra, 1 jafntefli og ekkert tap í fyrstu þrettán deildarleikjum tímabilsins. KIF Kolding liðið er meðal annars búið að vinna ellefu deildarleiki í röð.

„Þetta er ekki eitthvað sem við erum að hugsa mikið um en þetta hjálpar okkur vissulega í leikjunum enda gefur þetta okkur trú á því að við getum alltaf landað sigri þótt að illa gangi hjá okkur innan leikjanna," sagði Aron Kristjánsson í viðtali við HBOLD.dk.

KIF Kolding tapaði síðast stigi í dönsku úrvalsdeildinni í 20-20 jafntefli á móti AaB Håndbold 3. september síðastliðinn en síðasti tapleikur liðsins kom á móti  Sönderjysk Elite 9. apríl. KIF Kolding tapaði þá öðrum leiknum sínum í röð en hefur síðan leikið 29 leiki í röð án þess að tapa.

„Við verðum að vera hungraðir í sigur í hverjum einasta leik. Við megum því ekkert slaka á. Það er erfitt að spila í Holstebro og þeir eru með gott lið," sagði Aron.

KIF Kolding vann 30-26 sigur á Team Tvis Holstebro fyrir viku síðan en sá leikur fór fram á heimavelli KIF Kolding. Team Tvis Holstebro er í 5. sæti deildarinnar níu stigum á eftir KIF Kolding.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×