Innlent

Strætóbílstjóri klifraði milli svala á 5. hæð og bjargaði jólunum

Jakob Bjarnar skrifar
Ólafur strætóbílstjóri er góður granni; fór á milli svala á 5. hæð í blindbyl og lokaði opnum dyrum. Jólin hefðu ekki orðið eins gleðileg hjá mæðgunum og nú stefnir í ef ekki væri fyrir hann.
Ólafur strætóbílstjóri er góður granni; fór á milli svala á 5. hæð í blindbyl og lokaði opnum dyrum. Jólin hefðu ekki orðið eins gleðileg hjá mæðgunum og nú stefnir í ef ekki væri fyrir hann.
Olgu Björt Þórðardóttur brá í brún þegar hún fékk hringingu frá Búseta um hádegisbilið á þriðjudaginn, frá Búseta og var henni tjáð að svaladyrnar á íbúð hennar væru opnar og slægjust sífellt utan í handriðið í óveðrinu; hríðarkóf og ofankoma – rok og skyggni núll. Glerið væri við að brotna og töluverður snjór væri kominn í stofuna.

Olga Björt starfar á Víkurfréttum í Reykjanesbæ en býr á Völlunum í Hafnarfirði. Reykjanesbrautin var lokuð og nú voru góð ráð dýr. Enginn í tengslaneti Olgu var með lykil eða hafði tök á því að fara á staðinn. „Ég hringdi í manninn sem býr við hliðina á mér. Hann var sem betur fer ekki á vakt og hann gerði sér lítið fyrir og klifraði á milli svala á 5. hæð í veðurofsanum, lokaði dyrunum að innanverðu og gekk svo út um aðaldyrnar og lokaði þeim á eftir sér. Eina sem brotnaði var vængbrotinn gler/verndar)engill sem var í einni hillunni. Ólafur nágranni er hetja dagsins,“ segir Olga Björt þakklát og ánægð með að eiga svo traustan nágranna.

Ólafur nágranni er strætóbílstjóri og Olga Björt segir að hann hógværan og lítillátan, sjálfur vilji ekki gera mikið úr afrekinu, hann hafi ekki verði í bráðri hættu og náð að fara yfir vegg, hávaxinn sem hann er, sem er á milli svalanna án þess að þurfa að hanga út fyrir. „Hann vill ekkert gera úr þessu en við mæðgur gáfum honum skreyttar piparkökur sem þakklætisvott. Gott að vita af svona nágranna,“ segir Olga Björt.

En, víst er að Ólafur strætóbílstjóri bjargaði jólunum á þeim bænum, því það stefndi í stórtjón, sem ekki hefði verið gaman að eiga við nú þegar aðeins vika er til jóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×