Erlent

Stórt skref stigið í baráttunni við loftlagsbreytingar

Heimir Már Pétursson skrifar
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og , Shri Anil Madhav Dave, umhverfisráðherra Indlands á fundinum.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og , Shri Anil Madhav Dave, umhverfisráðherra Indlands á fundinum. Vísir/Getty
Tilkynnt var á ráðstefnu í Rúanda í morgun að 197 ríki og svæði hefðu náð samkomulagi um að draga stórlega úr notkun gróðurhúsalofttegunda í ísskápum og loftkælikerfum. Þetta er talið stórt skref í baráttunni á móti skaðlegum loftlagsbreytingum á jörðinni.

Tvö stærstu hagkerfi heims, Bandaríkin og Kína eru hluti af samkomulaginu. Samkvæmt því verða ríki flokkuð í þrjá flokka varðandi niðurskurð á notkun tækja sem nota hydroflúorkarbón, vetnisflúorkolefni, sem eru aðallega ísskápar og loftkælikerfi. En þetta efni er talið geta valdið tíu þúsund sinnum meiri skaða á andrúmsloftinu en koltvísýringur.

Vincent Biruta ráðherra náttúruauðlinda í Rúanda greindi frá samkomulaginu við sólarupprás þar í morgun og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar ljóst var að samkomulag hefði náðst.

Þróuð ríki í Evrópu og Norður-Ameríku munu draga úr notkun hinna skaðlegu efna um tíu prósent fyrir árið 2019 og um 85 prósent fyrir árið 2036. Önnur lönd munu stöðva aukningu á notkun þessara efna ýmist fyrir 2024 eða 2028 og eftir það draga úr notkuninni í skrefum.

Þróunarlöndin fá rýmri tíma en þróuð ríki þar sem millistéttin vex hratt í mörgum þeirra sem og vegna heitara loftlags en á norðurslóðum. Þá óttast Indverjar að ströng skilyrði í þessum efnum gætu dregið úr hröðum vexti efnahagslífsins hjá þeim.

Þetta er annað stóra skrefið sem stigið er á stuttum tíma í baráttunni gegn loftlagsbreytingunum, en í síðustu viku varð Parísar-samkomulagið í loftlagsmálum bindandi fyrir ríki heims eftir að Indland, Kanada og Evrópuþingið staðfestu það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×