Lífið

Stórsveit Samma í mikið ferðalag

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Samúel Jón Samúelsson Big Band heldur af stað í tónleikaferðalag um Evrópu.
Samúel Jón Samúelsson Big Band heldur af stað í tónleikaferðalag um Evrópu. mynd/Golli
„Við höfum farið í tónleikaferðalag á hverju ári síðan árið 2008 en þetta er lengsta ferðalagið sem við höfum farið í,“ segir tónlistarmaðurinn Samúel Jón Samúelsson, sem leggur af stað í ferðalag um Evrópu undir lok vikunnar ásamt stórsveit sinni.

Ferðalagið hefst þó á Gamla Gauknum í kvöld en svo fer sveitin til Sviss á föstudaginn og loks tekur við um það bil tveggja vikna langt ferðalag um Evrópu. Sveitin kemur fram á fjórtán tónleikum í heildina í fimm löndum; Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Tékklandi og Ungverjalandi.

Sveitin ferðast um á tveggja hæða rútu sem er vel búin. „Á efri hæðinni eru kojur þannig að við getum sofið á meðan við ferðumst á nóttunni, þá vaknar maður alltaf í nýrri borg sem er frábært,“ bætir Sammi við.

„Platan okkar 4 Hliðar er líka að koma út í Þýskalandi á næstu dögum á vegum útgáfufyrirtækisins Contemplate og því er kærkomið að fara út og spila,“ segir Sammi. Áður hafði fyrirtækið gefið út plötuna Helvítis Fokking Funk í Þýskalandi.

Sammi segir ákaflega gaman að fara með sveitinni í tónleikaferð en meðlimirnir eru þrettán talsins. „Við vorum alltaf átján en þurftum að fækka meðlimum til þess að passa í rútuna.“

Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 22.00. Nánar má lesa um ferðalagið hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×