Erlent

Stórsókn í skjóli Rússa

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ali Abdullah Ayoub, yfirmaður sýrlenska herráðsins, kom fram í sjónvarpi til að tilkynna um stórsókn.
Ali Abdullah Ayoub, yfirmaður sýrlenska herráðsins, kom fram í sjónvarpi til að tilkynna um stórsókn. Nordicphotos/AFP
Ali Ayoub, yfirmaður sýrlenska herráðsins, er afskaplega ánægður með loftárásir Rússa á yfirráðasvæði stjórnarandstæðinga.

Í sjónvarpsávarpi segir hann að í kjölfar loftárásanna hafi sýrlenski herinn náð frumkvæðinu og hafið stórsókn á landi gegn hryðjuverkamönnum.

Stjórnarherinn ætlar sér nú að endurheimta nokkrar mikilvægar borgir, sem uppreisnarmenn hafa lengi haft á sínu valdi.

Í gær skýrðu Rússar frá því að auk loftárásanna hafi þeir skotið alls 26 langdrægum sprengiflaugum frá fjórum herskipum í Kaspíhafinu. Þeim hafi verið skotið á yfirráðasvæði Íslamska ríkisins í Rakka, Aleppo og Idlib.

Alls segjast þeir hafa gert vel á annað hundrað árásir fyrstu vikuna og meðal annars eyðilagt fyrir hryðjuverkamönnum tugi farartækja, um 20 stjórn- og samskiptastöðvar og sex sprengjuverksmiðjur.

Sýrlandsstjórn hefur frá upphafi átakanna ekki gert neinn greinarmun á því hvort andstæðingar þeirra eru hryðjuverkamenn, erlendir málaliðar eða innlendir uppreisnarmenn gegn stjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×