Erlent

Stórskotaárásir halda áfram

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Blóðugir bardagar stríðandi fylkinga á Gaza héldu áfram í nótt og í morgun. Átökin eru þau verstu í áraraðir, en þrjátíu Palestínumenn hið minnsta fórust í einni stærstu stórskotaárás Ísraelshers síðan átök hófust fyrir tuttugu og tveimur dögum síðan.

Sprengingar og byssugelt mátti heyra víða á svæðinu í morgun og ekkert lát virðast ætla að vera á bardögunum. Harðar sprengjuárásir Ísraelshers lýstu upp næturhiminn Gaza  þegar flugskeytum var varpað á stóra byggingu, sem hýsir meðal annars sjónvarps- og útvarpsstöðvar í miðri Gazaborg. Þá var sprengjum varpað á eldsneytistank við eina raforkuverið á Gaza í morgun, og kemur sú árás til með að hafa áhrif á heimili 1,8 milljón íbúa á svæðinu.

Sprengjum var jafnframt varpað á almenningsgarð í Gazaborg, þar sem tíu fórust, meðal annars börn. Fjörutíu og sex særðust. Sú árás átti sér stað skömmu eftir að sprengja sprakk á Sifa-sjúkrahúsinu þar sem nokkrir særðust.

Ísraelski herinn sagðist ekki bera ábyrgð á sprengingunum og hélt því fram að eldflaugar palestínskra vígamanna hefðu valdið skaðanum eftir að hafa ekki drifið nógu langt. Palestínumenn voru þó ekki á sama máli og sögðu Ísraela bera fulla ábyrgð.

Hvorki gengur né rekur í friðarviðræðum deiluaðila, sem neita að setjast við samningaborð Sameinuðu þjóðanna.  Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, sagði í gær að nauðsynlegt væri að stöðva ofbeldi á Gaza hið snarasta, því þyrfti að linna í nafni mannúðar.

Byggingin hýsir meðal annars sjónvarps- og útvarpsstöðina Al-Aqsa. Eins og sjá má á þessu myndbandi var sprengingin gríðarleg. Sprengjum var jafnframt varpað á eldsneytistank við eina raforkuver í Gaza. Það kemur til með að hafa áhrif á alla íbúa Gaza.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×