Innlent

Stormur í vændum á suðausturhorni landsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Veðurstofan varar við stormi á sunnanverðum Austfjörðum og sunnan Vatnajökuls í nótt og á morgun.
Veðurstofan varar við stormi á sunnanverðum Austfjörðum og sunnan Vatnajökuls í nótt og á morgun. Vísir/Vilhelm
Veðurstofa Íslands varar við stormi á sunnanverðum Austfjörðum og sunnan Vatnajökuls í nótt og á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi hjá Veðurstofunni má gera ráð fyrir afmörkuðum vindstrengjum á þessum svæðum með vindhraða upp á meira en 20 m/s. Ekki er gert ráð fyrir að hvassviðrinu fylgi nein úrkoma að ráði. Mun stormurinn standa yfir í nótt og teygja sig fram á annað kvöld. Eru ferðalangar á þessu svæði beðnir um að huga að veðri áður en lagt er af stað.

Veðurhorfur á landinu

Norðaustan 8-15 m/s en 13-18 norðvestantil og suðaustanlands. Áfram norðaustan 10-18 vestantil á landinu á morgun en annars norðan og norðvestan 10-23, hvassast á sunnanverðum Austfjörðum og sunnan Vatnajökuls. Él fyrir norðan og austan, en skýjað með köflum sunnanlands. Frostlaust með suðurströndinni fram á kvöld, annars vægt frost. Herðir talsvert á frostinu á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðan 5-13 m/s og él, en léttskýjað sunnantil á landinu. Frost 3 til 10 stig.

Á miðvikudag:

Austlæg átt 3-8 m/s og úrkomulaust að mestu, en 8-13 og él með suðurströndinni. Hiti frá frostmarki syðst, niður í 10 stiga frost í innsveitum fyrir norðan.

Á fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir suðaustan- og austanátt. Snjókoma eða slydda með köflum um landið sunnanvert og hiti um eða rétt yfir frostmarki. Lengst af bjart veður norðantil og vægt frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×