Innlent

Stormur frameftir morgni suðaustan og austan til

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands. Mynd/vedur.is
„Eftir storm og stórhríð gærdagsins er farið að draga úr vindstyrk og úrkomu fyrir norðan,“ segir í hugleiðingu veðurfræðings Veðurstofunnar.

En eins og íbúum Akureyrar og víðar er kunnugt snjóaði talsvert í gær á Norðurlandi og fylgdi kuldanum kröftugur stormur. Hægt og rólega dregur úr vindi en enn er stormur fram eftir morgni suðaustan og austan til. Þá segir á vef Veðurstofunnar að líkur séu á hættulegum vindhviðum.

Í dag er spáð bjartviðri á Suður- og Vesturlandi en él fyrir norðan og austan. Hiti um frostmark, en upp í 8 stig sunnanlands. Dregur úr vindi og úrkomu í dag, breytileg átt 3-8 á landinu í kvöld, þurrt að kalla og víða frost. Suðaustan 8-13 á morgun og rigning á láglendi, en hægari og úrkomulítið NA-til. Suðvestlægari annað kvöld. Hiti 2 til 8 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Suðaustan og sunnan 8-13 m/s. Rigning á láglendi sunnan- og vestanlands, en snjókoma til fjalla. Þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn.

Á miðvikudag:

Suðvestan og vestan 8-15 m/s og skúrir eða él. Heldur hægari vindur og þurrt austantil á landinu. Kólnar lítillega.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Vestlæg átt 3-10 m/s og dálítil él eða skúrir N- og V-til, annars bjart með köflum. Hiti 1 til 7 stig.

Á sunnudag:

Útlit fyrir hæga norðaustlæga eða breytilega átt og þurrt veður. Hlýnar S- og V-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×