Viðskipti innlent

Stormasamt upphaf viku á hlutabréfamörkuðum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nikkei 225 hlutabréfavísitalan hefur fallið um tíu prósent síðan í byrjun mánaðar.
Nikkei 225 hlutabréfavísitalan hefur fallið um tíu prósent síðan í byrjun mánaðar. Fréttablaðið/Getty
Hlutabréf víðsvegar um heiminn lækkuðu á mánudag og þriðjudag. Á mánudaginn hrundu hlutabréf á evrópskum mörkuðum. Nikkei 225 hlutabréfavísitalan í Japan féll í kjölfarið um 5,4 prósent eða um 918,86 stig í gær. Ljóst er því að vikan byrjar illa á hlutabréfamörkuðum.

Á mánudaginn hrundu hlutabréf á evrópskum markaði. Bréf í Deutsche Bank féllu mest eða um 9,5 prósent. Í kjölfarið hríðféllu hlutabréf í Japan á þriðjudaginn. Nikkei-vísitalan hefur ekki lækkað meira á einum degi síðan á miðju ári 2013.

Keðjuverkunin hélt svo áfram í Evrópu við opnun markaða þar. Hlutabréf í Deutsche Bank héldu áfram að lækka í gær. Klukkan fjögur um eftirmiðdag höfðu þau lækkað um rúmlega þrjú prósent. FTSE 100 í London lækkaði mest um nærri tvö prósent yfir daginn, en hafði lækkað um eitt prósent klukkan hálf fjögur um eftirmiðdaginn.

Svo virðist sem fjárfestar í Japan vilji frekar setja fé sitt í tíu ára ríkisskuldabréf, þar sem þau eru talin áhættuminni. Sú mikla eftirspurn hefur þó gert það að verkum að þau veita nú neikvæða ávöxtun í fyrsta sinn í sögunni. Ríkisskuldabréfin hafa verið á niðurleið frá því að seðlabanki Japans ákvað að gera innlánsvexti lánveitenda neikvæða í janúar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×