Innlent

Stórlega dregið úr HIV meðal sprautufíkla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Stórlega hefur dregið úr HIV smitum meðal sprautufíkla hér á landi, en af þeim ellefu sem greindust með HIV á síðasta ári smituðust tveir þeirra eftir notkun notaðra sprautunála. Sprenging varð í HIV smitum síðustu árin 2011-2012, þegar tæplega fimmtíu greindust með veiruna. Meirihluti þeirra smitaðist í gegnum sprautur.

Framkvæmdastjóri HIV-Ísland segir þessa fækkun aukinni fræðslu og skaðaminnkandi hugmyndafræði frú Ragnheiðar að þakka.

„Frú Ragnheiður er gamall sjúkrabíll á vegum Rauða krossins sem ekur um göturnar og getur fólk í neyslu farið og fengið þar hreinar sprautur. Þetta kallast skaðaminnkandi hugmyndafræði og hefur nú stórlega dregið úr HIV meðal sprautufíkla,“ segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland.

Frú Ragnheiður er verkefni á vegum Rauða Krossins sem byggir á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, til dæmis útigangsfólks, heimilislausra og fíkla og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma eða kvaða, í þeirra nærumhverfi. Markmið  verkefnisins er að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum, sprautum og almennri fræðslu um skaðaminnkun.

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland.
„Smitsjúkdómadeild Landspítalans býður einnig upp á svokallaða skammtameðferð. Þá geta þeir sem eru í mikilli neyslu, sem oft gleyma að taka lyfin sín eða taka ekki rétta skammta, farið á spítalann og sótt sinn skammt og á sama tíma verið í reglulegum  samskiptum við hjúkrunarfræðinga eða lækna.“

Reglulega halda samtökin HIV-Ísland fyrirlestra í skólum og fyrirtækjum ásamt því að bjóða upp á fræðslustarf í fangelsum og meðferðardeildum.  Einar segir umræðuna hægt og rólega vera að breytast en óskar þó eftir meiri og opnari umræðu. Ekki sé þörf á ótta.

„Hingað til hefur það verið flokkað í ákveðna hópa hverjir það eru sem smitast með HIV. Samkynhneigðir, sprautufíklar og svo framvegis. Hlutirnir eru bara breyttir í dag og það viðheldur fordómum að flokka. Það sem skiptir máli er að fræða fólk og að fólk þekki smitleiðir. Það er annars vegar óvarið kynlíf og hins vegar að deila með sér notuðum sprautum,“ segir Einar.

„Oft kemur það aftan að fólki þegar það smitast og fólk hefur oft ekki hugmynd um að það sé smitað fyrr en einhverjum árum eftir að það smitast. Við hvetjum alla til þess að hringja á smitsjúkdómadeild Landspítalans og láta athuga þetta. Það tekur enga stund og niðurstöðurnar fást um það bil degi síðar,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×