Innlent

Stórir skjálftar í Kötlu í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katla er ein stærsta eldstöð landsins en þar hefur verið nokkuð mikil skjálftavirkni síðasta sólarhringinn.
Katla er ein stærsta eldstöð landsins en þar hefur verið nokkuð mikil skjálftavirkni síðasta sólarhringinn. vísir/vilhelm
Þrír stórir skjálftar mældust í Kötlu í nótt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Skjálftahrinan í eldfjallinu stendur því enn yfir.

Stærsti skjálftinn sem mældist í nótt var af stærð 3,7 og reið yfir klukkan 04:41 en einni mínútu áður hafði orðið annar skjálfti af stærðinni 3,1. Tilkynningar bárust frá Langadal um að stærri skjálftinn hefði fundist þar.

Fyrr í nótt eða klukkan 02:43 mældist skjálfti af stærðinni 3,2 á svipuðum slóðum en allir skjálftarnir eru grunnir. Sigurdís Björg Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að það hafi verið stöðug skjálftavirkni í alla nótt en um 200 skjálftar hafa mælst síðasta sólarhringinn.

„Það hefur verið ansi fjörugt í Kötlu í nótt en þetta eru allt grunnir skjálftar og það hefur ekki verið neinn gosórói eða jökulhlaupórói þannig að við erum nokkuð róleg hér á vaktinni þar sem ástandið er í raun óbreytt frá því í gær,“ segir Sigurdís í samtali við fréttastofu.

Katla er eldstöð í Mýrdalsjökli og ein af stærstu megineldstöðvum landsins. Hún gaus seinast árið 1918 og því má segja að kominn sé tími á Kötlugos þar sem eldstöðin hefur gosið að meðaltali á 40 til 80 ára fresti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×