Innlent

Stórir hópar sagðir utanveltu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
ASÍ segir Reykjavík hlutfallslega bjóða flestar félagslegar íbúðir, 1,8 á hverja 100 íbúa.
ASÍ segir Reykjavík hlutfallslega bjóða flestar félagslegar íbúðir, 1,8 á hverja 100 íbúa. Fréttablaðið/Vilhelm
Þrátt fyrir eftirspurn fjölgaði félagslegum leiguíbúðum sveitarfélaga bara um 60, eða 1,2 prósent, milli 2012 og 2013, að því er fram kemur í nýrri umfjöllun Alþýðusambandsins.

Þá áformi fá sveitarfélög aukningu slíks húsnæðis á næstunni. Reykjavíkurborg standi undir nær allri áformaðri fjölgun, en þar standi til að fjölga íbúðum um 270. Í Kópavogi séu áform um að fjölga íbúðum um tíu. Hafnarfjörður og Mosfellsbær ætli einnig að bæta við ótilgreindum fjölda íbúða. „Umsóknum fer fjölgandi, biðlistar eru langir og biðtími í mörgum tilvikum langur, einkum í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í umfjölluninni.

ASÍ segist ítrekað hafa bent á að stórir hópar í samfélaginu séu utanveltu á húsnæðismarkaði og búi við mikið óöryggi í húsnæðismálum. „Það er skylda stjórnvalda að tryggja þessu fólki húsnæðisöryggi á viðráðanlegum kjörum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×