Innlent

Stórir aðilar sátu hjá í útboðinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson
Már Guðmundsson
„Þetta er tvíbent á vissan hátt,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um niðurstöður aflands­krónaútboðs Seðlabanka Íslands. Útboðið fór fram 16. júní en niðurstaða þess var kynnt í gær.

Seðlabankinn hefur ákveðið að taka öllum tilboðum sem bárust á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra. Alls bárust 1.646 tilboð og var 1.619 tilboðum tekið. Fjárhæð samþykktra tilboða nam rúmlega 72 milljörðum króna af tæplega 178 milljörðum króna sem boðnar voru í útboðinu. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands minnkar um rúmlega 47 milljarða í kjölfar útboðsins.

Már Guðmundsson segir að fjöldi þátttakenda í útboðinu sé mikill og segir jafnframt að framkvæmd þess hafi tekist vel. „Hins vegar litast útboðið líka af því að stórir aflands­krónaeigendur tóku ýmist ekki þátt eða buðu gengi sem var hagstæðara en ákvarðað útboðsgengi,“ segir Már. Þetta skýri það hvers vegna framboð á aflands­krónum í útboðinu varð ekki meira en raun ber vitni.

„Við áttum að vísu alltaf von á því að sá hluti sem er í formi hlutafjár, sem eru kannski 70 milljarðar eða svo, myndi ekki koma enda eiga þeir eigendur kost á að halda í það hlutafé,“ segir Már.

Seðlabankinn tilkynnti líka í gær að hann byðist til að kaupa á útboðsgenginu 190 krónur á hverja evru aflandskrónaeignir sem ekki voru seldar í útboðinu. Frestur til að taka tilboðinu rennur út klukkan 10 á mánudaginn og niðurstaða kynnt á miðvikudaginn. „Það er ekki fyrr en það liggur fyrir að við vitum hversu mikið af aflandskrónaeignum losnar,“ segir Már en bætir við að ferlið hafi allt verið hannað þannig að núna sé hægt að fara að snúa sér að því að losa höft á innlenda aðila.

Ásgeir Jónsson
„Þetta eru væntanlega frekar mikil vonbrigði,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, um niðurstöður útboðsins. Hann segir hugsanlegt að stórir vogunarsjóðir kunni að fara með málið fyrir dómstóla. 

„Maður áttar sig ekki á því hvort það sé einungis hægt fyrir íslenskum dómstólum eða hvort þeir sjái fyrir sér að fara fyrir Evrópudómstólinn á grundvelli þess að verið sé að mismuna fólki.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×