Enski boltinn

Stóri Sam tekur við enska landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sam Allardyce for England.
Sam Allardyce for England. vísir/getty
Sam Allaryce, knattspyrnustjóri Sunderland í ensku úrvalsdeildinni, verður næsti þjálfari enska landsliðsins í fótbolta. Þetta hefur Sky Sports samkvæmt heimildum sínum en sagt er að hann verði kynntur til sögunnar á næstu 24 klukkutímum.

Nú þegar er búið að gera Sunderland viðvart og er félagið byrjað að leita að eftirmanni Allardyce sem hélt liðinu uppi í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Allaryce var ásamt Steve Bruce, stjóra Hull, og fleirum á teikniborði enska knattspyrnusambandsins sem er sagt ákveða það endanlega á stjórnarfundi á morgun að ráða Stóra Sam.

Sam Allardyce fær það verkefni að byggja upp lið sem getur staðið sig á HM 2018 og væntanlega EM 2020 en liðið hefur ollið miklum vonbrigðum á síðustu tveimur stórmótum.

Enskir duttu út úr riðlakeppninni á HM 2014 í Brasilíu og voru svo sendir heim af strákunum okkar eftir 2-1 tap í 16 liða úrslitum EM 2016 í Nice.

Stóri Sam er þrautreyndur knattspyrnustjóri en hann hefur stýrt Bolton, Newcastle, Blackburn, West Ham og Sunderland í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×