Enski boltinn

Stóri Sam segist geta gert enska liðið betra en ætlar ekki að dansa | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sam Allardyce er þjálfari Englands.
Sam Allardyce er þjálfari Englands. vísir/getty
Sam Allardyce, nýráðinn þjálfari enska landsliðsins í fótbolta, mætti til starfa í fyrsta sinn í dag við hátíðlega athöfn í húsakynnum enska knattspyrnusambandsins.

Stóri Sam, sem stýrði síðast Sunderland í ensku úrvalsdeildinni, sat blaðamannafund þar sem hann svaraði spurningum blaðamanna en mikil uppbygging er fyrir höndum hjá enska landsliðinu. Enska liðið olli gífurlegum vonbrigðum bæði á HM 2014 og EM 2016 en á síðarnefnda mótinu var liðið sent heim af strákunum okkar í 16 liða úrslitum þar sem Ragnar Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörkin.

England hefur ekki unnið stórmót síðan 1966 þegar liðið varð heimsmeistari á heimavelli en það hefur oft þurft að þola mikla gagnrýni eða mikla sorg á stórmótum. Hefur starf enska landsliðsþjálfarans verið kallaður eitraður kaleikur en Allardyce lítur ekki á það þannig.

„Mér finnst það ekki. Ég er með þykkan skráp eftir mörg ár í þessu. Maður gerir sig sterkari fyrir hvert einasta starf sem maður tekur,“ sagði Allardyce á blaðamannafundinum í dag.

„Maður tekur því góða með því slæma annars sleppir maður þessu bara. Ég er hérna því ég vil vera hérna. Ég hlakka til áskoruninnar. Ég er hér því ég held að ég geti gert liðið betra og ég er nógu sterkur til að ráða við þetta starf. Þannig komiði bara, strákar,“ sagði hann glottandi.

Það var létt yfir Allardyce á fundinum en hann var spurður hvort enskir stuðningsmenn ættu von á að sjá hann dansa á næstunni eins og hann gerði á Spáni á dögunum.

Stóri Sam sýndi hvað í hann er spunnið á dansgólfinu á Marbella á Spáni þar sem hann og lærisveinar hans í Sunderland fögnuðu því að vera áfram í deild þeirra bestu eftir að bjarga sér frá falli.

Allardyce sagðist auðvitað vonast eftir því að enska liðið verði sigursælt undir hans stjórn og það komist bæði á HM 2018 í Rússlandi og standi sig vel þar. En dansinn mun ekki duna.

„Ég er ekki svo viss um að þið grípið mig dansandi í nánustu framtíð,“ sagði Sam Allardyce eftir að skella upp úr.

Neðst í fréttinni má sjá Allardyce stíga trylltan dans á Marbella.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×