Enski boltinn

Stóri Sam ekki tekið ákvörðun um hvort Rooney verði áfram fyrirliði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney áfram með bandið?
Wayne Rooney áfram með bandið? vísir/getty
Sam Allardyce, nýráðinn þjálfari enska landsliðsins í fótbolta, mun ekki taka ákvörðun um hvort Wayne Rooney haldi fyrirliðabandinu fyrr en eftir fyrsta liðsfundinn með leikmönnum enska liðsins.

Rooney var fyrirliði Englands á EM eins og hann hefur verið undanfarin misseri en hann spilaði aðeins einu sinni 90 mínútur í Frakklandi er enska liðið var sent heim af því íslenska í 16 liða úrslitum.

„Það er alltof snemmt að fara spá eitthvað í þessu núna. Ég mun bíða með þessa ákvörðun þar til við hittum alla leikmennina og ég næ að hitta allt starfsliðið þar sem við ræðum leikina í september,“ sagði Allardyce á blaðamannafundi.

Wayne Rooney er búinn að spila 115 landsleiki fyrir England og þarf aðeins ellefu til viðbótar til að komast upp fyrir Peter Shilton sem leikjahæsti leikmaður Englands frá upphafi. Hann er nú þegar markahæstur með 53 mörk.

„Þetta er bara fyrsti dagurinn minn og ég er að koma mér fyrir,“ sagði Stóri Sam.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×