Handbolti

Stórhættulega brotið á Guðjóni Val | Sjáið myndirnar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Það kom upp leiðinlegt atvik í landsleik Íslanda og Ísraels í kvöld þegar markvörður Ísraels fékk rautt spjald fyrir að verða í vegi fyrir Guðjóni Val Sigurðssyni í hraðaupphlaupi.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari 365, náði frábærum myndum af atvikinu sem má sjá í myndamöppunni hér neðst í fréttinni.

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni sem Vilhelm Gunnarsson tók þá er markvörður Ísraels kominn langt út á völlinn þar sem Guðjón Valur lendir á honum en Guðjón hafði rétt gripið boltann og sá markvörðinn ekki.

„Við útileikmenn viljum sjá markmenn inni í teig af því að menn hafa meiðst alvarlega við svona. Menn hafa rotast og gleypt í sér tunguna og verið í lífshættu. Sem betur fer gerðist ekki í dag,“ sagði Guðjón Valur um atvikið.

„Hann lendir þarna á milli og sér enga undankomuleið en ég sé hann ekki. Ég er bara að horfa á boltann og sé að ég er búinn að vinna hornamanninn þeirra.

„Vandamálið er að ef þú breytir reglunum. Þá þarftu að taka vestisregluna út. Ef markmenn mega ekki fara út úr teig þá máttu ekki setja leikmann í sóknina í vesti. Þá getur markmaðurinn ekki heldur farið út að hliðarlínu og talað við kollega sinn eða fengið sér vatn. Þetta er rosalega mikið haltu mér slepptu mér.

„Ég snögg reiddist en ég talaði við hann í hálfleik og hann bað mig afsökunar. Þetta var enginn ásetningur hjá honum. Það breytti því ekki að mér brá rosalega,“ sagði Guðjón Valur sem verður ekki oft svona reiður á velli.

„Nei, ekki oft enda væri ég þá oftar inni í klefa en á vellinum ef ég væri oft svona reiður. Þetta er búið og það gerðist ekkert og engin ástæða til að erfa þetta eitthvað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×