Innlent

Stórgölluð umgjörð og veikt regluverk í ferðaþjónustu

Svavar Hávarðsson skrifar
Skráðum fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu hefur fjölgað mikið undanfarið og langt umfram það sem sést á öðrum sviðum atvinnulífsins.
Skráðum fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu hefur fjölgað mikið undanfarið og langt umfram það sem sést á öðrum sviðum atvinnulífsins. Fréttablaðið/Valli
 Það má segja að ferðaþjónustan heyri undir þrjú fagráðuneyti, hið minnsta, og því vantar allan fókus innan stjórnkerfisins varðandi málefni ferðaþjónustunnar. Heilt yfir býr greinin við stórgallaða umgjörð og veikt regluverk. Ábyrgð nýrrar ríkisstjórnar er mikil í að tryggja einfalda og skilvirka umgjörð fyrir eins hratt vaxandi atvinnugrein og ferðaþjónustan er.

Þetta er mat Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Í leiðara í nýjasta fréttabréfi SAF beinir hún orðum sínum til forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna vegna fyrirheita um aukið fjármagn til uppbyggingar innviða, velferðar- og menntamála. Það hljóti að þýða að forgangsverkefnið sé að tryggja samkeppnishæft og stöðugt rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu.

Helga Árnadóttir
„Hvað ferðaþjónustuna varðar þá hafa fyrirtækin tekist á við miklar launahækkanir síðustu misserin, neikvæð áhrif styrkingar íslensku krónunnar, stórgallaða umgjörð og veikt regluverk. Eftirliti með ólöglegri og svartri starfsemi er verulega ábótavant og ólíðandi að fyrirtæki í ferðaþjónustu skulu þurfa að eiga í samkeppni við þá sem ekki skila sköttum og skyldum í ríkissjóð. Ríkið verður á sama tíma að axla ábyrgð gagnvart öryggi ferðamannsins, t.a.m. er áætlað að um 30% allra gistinátta séu í leyfislausu húsnæði þar sem öryggismál eru ekki tryggð,“ skrifar Helga.

Spurð til hvers hún vísar með orðunum „stórgölluð umgjörð og veikt regluverk“, segir Helga af nægu að taka en nefnir sem dæmi að ferðaþjónustan heyri nú í raun undir þrjú ráðuneyti hið minnsta. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, innanríkisráðuneytið vegna samgangna og umhverfisráðuneytið vitaskuld.

„Svo varðar þetta leyfisveitingar – um allt kerfið; eftirliti er verulega ábótavant til dæmis gagnvart heimagistingu, ferðum upp á jökla og þess háttar. Heildstæðar upplýsingar og tölfræðigögn vantar og stofnanaumgjörðin er flókin og ferðaþjónustan oftar en ekki veikburða innan hennar,“ segir Helga og nefnir sem enn eitt dæmið að þrír þjóðgarðar eru undir þremur stofnunum með þrenn mismunandi lög.

Lög um skipan ferðamála eru barn síns tíma, og ekki í takt við þá þróun sem orðið hefur í greininni. Hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála er að rýna þessi verkefni sem er að sjálfsögðu afar aðkallandi fyrir hratt vaxandi og afar mikilvæga atvinnugrein. Ný ríkisstjórn verður að taka á þessum málum af fullum þunga á næsta kjörtímabili og tryggja einfalda umgjörð um greinina sem og regluverk,“ segir Helga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×