Innlent

Stórfelldur fíkniefnainnflutningur: Sæti farbanni þar til dómur fellur

Atli Ísleifsson skrifar
Tveir þeirra eru sem sátu gæsluvarðhald vegna málsins eru Íslendingar og tveir Hollendingar. Þeir eru á þrítugs og fertugsaldri.
Tveir þeirra eru sem sátu gæsluvarðhald vegna málsins eru Íslendingar og tveir Hollendingar. Þeir eru á þrítugs og fertugsaldri. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur dæmt karlmann, sem grunaður er um aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi í september á síðasta ári, til að sæta farbanni allt til 23. ágúst næstkomandi.

Hæstiréttur staðfestir þar með dóm Héraðsdóms Reykjaness, en málið snýr að innflutningi á um 20 kílóum af amfetamíni og 2,6 kílóum af kókaíni frá Hollandi til Íslands sem hafi verið ætlað til söludreifingar í ágóðaskyni.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að meðákærði mannsins hafi komið til landsins, ásamt erlendri konu, með Norrænu þann 22. september á síðasta ári og hafi lögregla haft eftirlit með bíl þeirra þar sem honum var ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur.

Þremur dögum eftir komu til landsins hafi meðákærði mannsins skilið bílinn eftir á bílastæði við Keflavíkurflugvöll, yfirgefið landið og síðan komið aftur til landsins 28. september og sótt bílinn. Þennan sama dag hafi ákærði einnig komið til landsins og hafi þeir ekið á sitt hvorum bílnum á stað þar sem þeir voru báðir handteknir af lögreglu. Fíkniefnin fundust í bíl meðákærða.

„Alls hafi fjórir aðilar verið handteknir vegna málsins og hafa þeir allir sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar þess. Það sé mat ákæruvaldsins að ferð ákærða [...] til landsins hafi haft þann eina tilgang að fjarlægja fíkniefnin úr bifreiðinni og afhenda þau,“ segir í dómnum.

Tveir þeirra eru sem sátu gæsluvarðhald vegna málsins eru Íslendingar og tveir Hollendingar. Þeir eru á þrítugs og fertugsaldri.


Tengdar fréttir

Lögreglan fylgdist með hollenska bílnum í nokkra daga

Fólksbíll sem lögreglan lagði hald á síðastliðinn mánudag vegna gruns um að fíkniefni væru í honum var vaktaður af fíkniefnalögreglunni í nokkra daga þar sem hann stóð óhreyfður á bílaplani.

Fundu tugi kílóa af sterkum efnum í bíl

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á tugi kílóa af sterkum fíkniefnum sem fundust í bifreið síðastliðinn mánudag. Bifreiðin kom hingað til lands með Norrænu 22. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×