Innlent

Störf á leikskóla ekki fyrir eldri borgara

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Mér hefur fundist voða gott að vera úti með börnin og sinna þeim,“ segir Þórkatla sem lætur af störfum í dag á Ægisborg.
„Mér hefur fundist voða gott að vera úti með börnin og sinna þeim,“ segir Þórkatla sem lætur af störfum í dag á Ægisborg. vísir/gva
„Það er mikill misskilningur að eldri borgarar geti farið að stunda þessa vinnu þó þeirri hugmynd hafi verið hreyft. Hún er það erfið líkamlega,“ segir Þórkatla Sigfúsdóttir um starf á leikskóla. „Svo eru kröfurnar þannig að fólk þarf að kunna vel á tölvur því allt þarf að skrá.“

Þórkatla er 68 ára og hefur unnið á leikskólanum Ægisborg samfleytt frá 1982. Nú er hún að hætta í dag. „Ég kvíði fyrir að hætta en heilsan leyfir ekki að ég haldi áfram, ég er orðin það slæm í fótunum,“ útskýrir hún. Kveðst samt ekki geta hugsað sér skemmtilegra starf en á leikskóla. Tíminn sé svo fljótur að líða og ekki sé ein mínúta leiðinleg. „Börnin gefa manni svo mikið og foreldrarnir líka, það er allt yndislegt fólk og ég tala nú ekki um vinnufélagana.“ Segir það líka hafa bjargað sér að vera gift kona og hafa fyrirvinnu.

Margt hefur breyst til batnaðar frá því að Þórkatla byrjaði á Ægisborg 1982. „Fyrst var þetta bara geymsla fyrir börn. Við vorum tvær á deild og reyndum að hafa ofan af fyrir börnunum og sinna þeim sem best. En í dag er starfið komið á skólastig. Ægisborg er klassaskóli og starfsfólkið allt háskólalært,“ segir hún.

Á Ægisborg eru rúmlega 80 börn á tveimur deildum. Þórkatla er á „eldri deildinni“ sem er fyrir þriggja til sex ára. Það er minni vinna en með litlu börnin. Þau eru svo mikið á handleggnum. Hún hefur unnið frá 7.30 til 14 í mörg ár, það er 81% starf. „Þegar ég kem heim er ég algerlega búin og sef í tvo tíma. Börnin taka mikla orku þótt þau séu yndisleg og það er ekki fyrir eldra fólk að bogra yfir þeim, klæða þau og reima skóna.“

Þórkatla mun ekki verða iðjulaus þó að hún hætti að vinna. Hún er frá Raufarhöfn, þar á hún óðal og þarf að sinna æðarvarpi í vor. En ætlar að byrja á að skreppa til Prag. „Ég á fullt af áhugamálum og fjölda ættingja og vina,“ segir hún. „Er líka í mörgum klúbbum svo mér mun ekki leiðast.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×