Innlent

Stóra spurningin hvernig hægt er að fá fólk til að borða skordýr

Benedikt Bóas skrifar
Dásamlegar kökur þar sem skordýrin setja svo sannarlega lit sinn á heildarútlitið.
Dásamlegar kökur þar sem skordýrin setja svo sannarlega lit sinn á heildarútlitið. NordicPhotos/Getty
„Það er ekkert mál að matreiða skordýr og við vitum hvernig á að framleiða þau. Spurningin er hvernig við getum fengið fólk til að borða skordýr og hafa áhuga á þeim sem vöruflokki. Það er erfitt þegar lög og reglur banna þá iðju,“ segir Búi Bjarmar Aðalsteinsson en hann tekur þátt í umræðum í Norræna húsinu í kvöld um vestrænar hugmyndir um skordýraát.

Kvikmyndin Bugs, eftir danska leikstjórann Andreas Johnsen, verður sýnd á undan umræðunum og munu þeir Búi ræða um möguleikana sem felast í skordýraræktun og -áti.

„Undirliggjandi er að matarframleiðsla eins og hún er í dag gengur ekki alveg upp, ekki mikið lengur og það verður eitthvað að gerast. Í framtíðinni er matvælaframleiðsla úr skordýrum eitt af því sem vert er að skoða. Þetta verður á léttu nótunum þó þetta séu grafalvarlegar spurningar,“ segir Búi.

Að borða skordýr er ekkert nýtt en flestum í vesturheimi finnst það ógeðslegt og frekar ógeðfellt. „Fyrir mér lítur þetta þannig út, eftir því sem ég er búinn að skoða og rannsaka, að þetta snýst um matarmenningu. Við erum þjóð sem borðar súrsaða hrútspunga og kindahöfuð sem sviðin eru með logsuðutæki, við borðum hákarl og ýsu. Bragðið er ekkert til að hrópa húrra fyrir en það er menning í kringum fæðuna og því tilheyrir þetta okkar matarmenningu. Hvers vegna er ekki hægt að gera það sama með skordýr?

Búi segir að Ísland geti verið mjög framarlega í framleiðslu á matvælum úr skordýrum. Hér séu kjöraðstæður til þess. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×