Innlent

Stóra pelsamálið: „Það er hipp og kúl að vera í svona spreyjuðum pelsum“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Það er alltaf verið að reyna að fela fátækt á Íslandi og það hefur verið reynt að fela hana síðastliðin 20 ár frá því ég kynntist kjörum eldri borgara og öryrkja. Það er nokkuð sem við viljum ekki gera,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands, um gagnrýni sem samtökin hafa fengið á sig fyrir að ætla að gefa fátækum og heimilislausum pelsa sem hafa verið merktir með spreyi. Þetta kom fram í viðtali í Reykjavík síðdegis.

Um er að ræða 200 pelsa sem fengnir voru frá alþjóðlegu dýraverndarsamtökunum PETA að gjöf en þeir voru spreyjaðir til að koma í veg fyrir þeir yrðu seldir aftur.

Þessi gjörningur hefur verið umdeildur og hefur til að mynda Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður, gagnrýnt þetta fyrirkomulag á RÚV.

Guðrún sagði það vera siðferðilega rangt að merkja fátækt fólk með þessum hætti en Ásgerður Jóna segir það af og frá.

„Í sjálfu sér er hipp og kúl að vera í spreyjuðum pelsum í útlöndum en þetta er eitthvað mjög viðkvæmt á Íslandi,“ segir Ásgerður og tekur fram að það sé langt því frá þannig að verið sé að lítilsvirða fátækt fólk með þessum hætti.

„Við erum ekki að gera það, því það er hipp og kúl að vera í svona spreyjuðum pelsum og fólk velur sér það sjálft ef það vill. Við erum ekki að neyða þetta inn á einn eða neinn,“ segir Ásgerður.

Hún segir að vitað sé um bágstadda á Íslandi í óupphituðu húsnæði sem hafi þörf fyrir svona klæðnaði og tekur fram að hægt sé að þrífa litinn af pelsunum.

„Það er smá vinna en það er hægt.“

Hún á von á því að heimilislausir karlmenn verði í meirihluta þeirra sem muni sækja sér pelsa og minnir á að síðustu opinberu tölur gefi til kynna að 170 séu heimilislausir á Íslandi og því veiti ekki af þessari aðstoð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×