Innlent

Stór spurningamerki við Móabarðsmálið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Allar þekktar mannaferðir í Móabarði á þeim tíma sem árásirnar eiga að hafa átt sér stað hafa verið kannaðar og eiga sér eðlilegar skýringar að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns. Móabarð er löng gata með fjölmörgum minni botnlangagötum.
Allar þekktar mannaferðir í Móabarði á þeim tíma sem árásirnar eiga að hafa átt sér stað hafa verið kannaðar og eiga sér eðlilegar skýringar að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns. Móabarð er löng gata með fjölmörgum minni botnlangagötum. vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarnar þrjár vikur haft til rannsóknar meintar líkamsárásir á hendur konu við Móabarð í Hafnarfirði. Enginn hefur verið yfirheyrður eða handtekinn í málinu og engin vitni urðu að árásunum.

Málið er afar viðkvæmt og vill lögregla ekki tjá sig um þann möguleika að konan hafi sjálf veitt sér þessa áverka. Samkvæmt heimildum Vísis er það talið mögulegt, bæði af lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki.

Yfirmaður ofbeldis- og kynferðisbrotadeildar lögreglu segir að allir möguleikar séu rannsakaðir. Lögregla hefur ítrekað komið á framfæri að almenningur og nágrannar í hverfinu ættu ekki að óttast. Teldi hún hættu á ferðum hefði fólk verið varað við.

Meintu árásirnar tvær áttu sér stað í Hafnarfirði.Vísir/Daníel
Sagði manninn hafa þóst ætla að lesa af mælum

Forsaga málsins er sú að lögreglan var kölluð að heimili við Móabarð í Hafnarfirði mánudaginn 15. febrúar, fyrir rúmum þremur vikum. Kona, sem hafði verið ein heima með ungbarn sitt, var með alvarlega áverka og lýsti því hvernig ókunnugur maður hefði ráðist á sig.

Frásögn konunnar var sláandi. Maður hefði bankað upp á um áttaleytið, sagst vera starfsmaður orkufyrirtækis og þyrfti að lesa af mælum.  Konan bauð manninum inn og þá átti hann að hafa ráðist á hana.

Lögregla varðist frétta af málinu framan af vikunni en auglýsti eftir manni miðvikudaginn 15. febrúar án þess að upplýsa hvers vegna mannsins væri leitað.

Fram kom að maðurinn væri um 180 sm á hæð og fölleitur, dökklæddur með svarta hanska og húfu. Hann væri talinn á aldrinum 35-45 ára. 

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður ofbeldis- og kynferðisbrotadeildar, segir lögregluna ætla að komast til botns í málinu.
Hinn fölleiti ófundinn

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður ofbeldis- og kynferðisbrotadeildar lögreglu, segir í samtali við Vísi að þannig hafi konan lýst manninum sem hún sagði hafa ráðist á sig á mánudagsmorgninum. 

Viku síðar, sunnudagskvöldið 21. febrúar, var lögregla aftur kölluð að sama heimili við Móabarð. Þá átti sami maður að hafa verið á ferð og ráðist á konuna. Hafði maður hennar brugðið sér af bæ og meintur árásarmaður nýtt sér það og gert aðra atlögu. Var konan lögð inn á sjúkrahús.

Sjá einnig:Nágrannar vígbúast

Mánudaginn 22. febrúar ítrekaði lögregla bón sína eftir upplýsingum um fyrrnefnda fölleita manninn á aldrinum 35-45 ára. Sá maður er enn ófundinn að sögn Árna Þórs. 

Hann segir stöðuna á rannsókninni þannig að allar þekktar mannaferðir hafi verið kannaðar og eigi sér eðlilegar skýringar. Allar ábendingar og vísbendingar hafi engu skilað.

„Það  hefur ekki verið ástæða af okkar hálfu til að vara almenning við hugsanlegum geranda,“ segir Árni. Ekkert hafi komið fram sem gefi ástæðu til þess

„Það er eitthvað sem við hefðum gert strax hefði þótt ástæða til þess.“



Vilja fá botn í málið

Ekki er óeðlilegt að almenningur velti fyrir sér hvort líkamsárás hafi yfirhöfuð átt sér stað við Móabarð mánudaginn 15. febrúar og aftur tæpri viku síðar. 

Í sakamálalögum segir að þeir sem rannsaki sakamál eigi að „vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.“

Árni Þór segist ekki geta upplýst hvort lögregla hafi spurt konuna út í þann möguleika að hún hafi veitt sér áverkana sjálf

„Það er hlutur sem ég get ekki upplýst um. Ég hef enga heimild til að fara út í þá sálma,“ segir Árni. Hann ítrekar að allir þættir málsins hafi og verði rannsakað.

„Við viljum fá botn í þetta mál og höldum áfram að reyna að ná því.“

Frétt uppfærð þar sem þess láðist að geta í textanum að samkvæmt heimildum Vísis teldi bæði starfsfólk lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk mögulegt að konan hafi sjálf veitt sér áverkana.


 


Tengdar fréttir

Lögreglan biður Hafnfirðinga um að sýna stillingu

Lögregla biður fólk um að sýna stillingu vegna málsins í Móabarði og segir enga ástæðu til að íbúar Hafnarfjarðar safni að sér bareflum og sleppi því að opna útidyrnar.

Enginn grunaður í Móabarðsmáli

Ekkert hefur komið fram við rannsókn málsins sem gefur lögreglu tilefni til að vara íbúa við einhverjum óþekktum geranda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×