Innlent

Stór hluti bata á ríkissjóði fer í leiðréttinguna

Heimir Már Pétursson skrifar
Stór hluti af bættri afkomu ríkissjóðs upp á 42 milljarða króna á þessu ári fer til að greiða hraðar niður skuldbindingar ríkissjóðs vegna leiðréttingarinnar. Formaður fjárlaganefndar gagnrýnir óvænt útgjöld vegna kostnaðar við rannsóknarskýrslu Alþingis um sparisjóðina.

Ríkissjóður stendur mun betur á þessu ári en fjárlög ársins gerðu ráða fyrir og því skapast borð fyrir báru. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir þetta ár kemur fram að útgjöld ríkissjóðs aukast um 16,9 milljarða og tekjur hans um 16,3 milljarða. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir stóru fréttirnar að afgangur á rekstri ríkissjóðs aukist um 42 milljarða.

Hefði ekki verið eðlilegt að taka þennan bata og greiða niður skuldir ríkissjóðs?

„Við erum að ráðstafa broti af þessu til að hraða skuldaniðurfellingartillögunum og það er að koma hraðar til heimilanna en áætlað var. Ég er mjög ánægð með það en svo erum við að safna upp afgangi til þess að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs,“ segir Vigdís.

Á útgjaldahlið gagnrýnir Vigdís m.a. óvæntan og aukinn kostnað við gerð rannsóknarskýrslu Alþingis um sparisjóðina og Íbúðalánasjóðs upp á 130 milljónir króna,

„Mestu vonbrigðin eru þessi bakreikningur fyrir rannsóknarnefndir Alþingis sem er nú þegar farinn að slaga allt í allt upp í einn og hálfan milljarð. En við erum að tala um að kostnaðurinn við skýrsluna um sparisjóðina og Íbúðalánasjóð sé að verða þúsund milljónir. Allir héldu að það væri búið að afgreiða það fyrir fullt og allt,“ segir Vigdís.

Þá hefur eldgosið í Holuhrauni kostað sitt en í fjáraukalögum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að um 350 milljónir fari í aukin framlög til sjö stofnana vegna kostnaðar við eldgosið.

Stjórnarandstaðan bendir á að um helmingur batans sé til kominn vegna breytinga á skuld ríkissjóðs við Seðlabankann og gagnrýnir hvernig því sem eftir stendur af batanum er ráðstafað.

Breytingin á skuldinni við Seðlabankann bætir stöðu ríkissjóðs um 21 milljarða króna. En til þess að breyting á skuldabréfi ríkissjóðs hjá bankanum geti náð fram að ganga þarf að breyta lögum um Seðlabankann en mælt var fyrir frumvarpi þar að lútandi á miðvikudag.

Þá gagnrýnir stjórnarandstaðan að um 16 milljarðar af bættri stöðu farið í að hraða greiðslum vegna skuldaleiðréttingarinnar.

„Við hefðum viljað taka þennan bata yfir á árið 2015 og nýta hann i það að styrkja heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðra innviði samfélagsins sem standa illa,“ segir Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar. En hún mælti fyrir nefndaráliti minnihlutans í fjárlaganefnd um fjáraukalögin á Alþingi í dag.

Hún nefnir að um 300 milljónir í bættri afkomu ríkissjóðs megi rekja til minni útgjalda til barnabóta. Þegar til hafi staðið að lækka barnabætur við fjárlagagerðina fyrir þetta ár skömmu fyrir áramót í fyrra hafi því verið mótmælt harðlega innan og utan Alþingis og því hætt við lækkunina. Ríkisstjórninni hafi hins vegar tekist að ná lækkuninni fram með tekjuviðmiðum sem lækkað hafi útgreiðslu barnabóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×