Lífið

Stolt af upprunanum

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Fida Abu Libdeh kom hingað til lands frá Palestínu árið 1995 þegar hún var sextán ára gömul. Hún starfar nú hjá frumkvöðlafyrirtækinu geoSilica sem hún stofnaði ásamt Burkna Pálssyni árið 2012. Í fyrra settu þau sína fyrstu vöru á markað en það er hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli.
Fida Abu Libdeh kom hingað til lands frá Palestínu árið 1995 þegar hún var sextán ára gömul. Hún starfar nú hjá frumkvöðlafyrirtækinu geoSilica sem hún stofnaði ásamt Burkna Pálssyni árið 2012. Í fyrra settu þau sína fyrstu vöru á markað en það er hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli.
Fida Abu Libdeh kom hingað til lands frá Palestínu árið 1995 þegar hún var sextán ára gömul með móður sinni og fimm systkinum. Hún og systkinin fylgdu móður sinni þegar hún og faðir þeirra skildu. Fida var ekki alveg ókunnug Íslandi því móðurbróðir hennar hafði búið hér lengi og hann aðstoðaði fjölskylduna við að koma hingað og hefja nýtt líf.

„Við þekktum aðeins til landsins, frænkur okkar höfðu komið í heimsókn til Palestínu og við kunnum til dæmis að telja á íslensku. Þegar við komum hingað var þetta öðruvísi en ég bjóst við. Fyrstu dagarnir voru mjög erfiðir, það var vont veður, erfitt að læra málið, aðlagast skólanum og eignast nýja vini,“ útskýrir Fida.

Fida á sínum yngri árum. Hún segist reyna að fara í gegnum lífið á sínum eigin forsendum en ekki annarra.
Draumarnir hverfa

Fida og eldri systir hennar byrjuðu í tíunda bekk í Austurbæjarskóla við komuna hingað, hún sextán ára og systir hennar sautján. Þaðan fóru þær svo í Iðnskólann í Reykjavík. „Þar byrjuðu vandamálin. Stuðningurinn var miklu minni og við kunnum ekki málið. Þar var kennd íslenska fyrir innflytjendur en allt hitt námsefnið var kennt á íslensku þannig að við náðum hvorug að klára menntaskólann,“ segir hún.

Þetta var mjög erfitt tímabil fyrir Fidu því hún hafði alltaf átt sér draum um að klára nám og voru væntingar hennar til Íslands þær að hér fengi hún góða menntun. „Í Palestínu er erfiðara að fá menntun og það kostar sitt en ég vissi að á Íslandi gætu allir farið í skóla, hér hefðu allir rétt á að mennta sig og að það væri ókeypis. Draumurinn var alltaf að klára nám og gera hluti sem skipta máli í samfélaginu. Ég var mjög óhamingjusöm á þessu tímabili, skildi ekki kennarana, átti ekki vini og horfði á draumana mína hverfa.“

Þegar Fida varð átján ára var ekki annað í boði fyrir hana en að fara að vinna því þá þurfti hún að sýna fram á að hún gæti framfleytt sér til að halda atvinnuleyfinu. Hún fór því að vinna en fór líka í kvöldskóla því hún var ekki tilbúin að gefast upp. „Þar kláraði ég raungreinarnar en náði aldrei íslenskunni. Ég bað um að fá móður­mál mitt, arabísku, metið sem móðurmál og íslensku sem annað mál og sleppa þá við dönskuna. Enginn vildi bera ábyrgð á því, skólinn benti á menntamálaráðuneytið en það benti til baka á skólann,“ segir Fida.

Hún nefnir að núna sé meiri sveigjanleiki í kerfinu, mögulegt sé fyrir nemendur að taka stöðupróf í sínu móðurmáli og fá það metið. „Sem betur fer, það eykur möguleikana en samt sem áður eru innflytjendabörn með mjög mikið brottfall úr menntaskóla sem segir okkur að við erum kannski ekki að gera nóg til að halda þeim í skólanum. Við græðum öll á því að þau klári sína menntun og fáum þannig hæfari einstaklinga út í samfélagið.“

Stofnaði eigið fyrirtæki

Þegar Keilir fór að auglýsa lánshæft nám fór Fida í viðtal hjá ráðamönnum skólans. „Þeir voru mjög jákvæðir og sögðu að íslenskan ætti ekki að stoppa mig.“ Í Keili fékk Fida þann stuðning sem hún þarfnaðist til að klára stúdentspróf og í framhaldinu þriggja ára háskólanám í umhverfis- og orkutæknifræði. Út frá lokaverkefni í því námi stofnaði Fida frumkvöðlafyrirtækið geoSilica með skólafélaga sínum, Burkna Pálssyni.

„Í náminu var lögð mikil áhersla á jarðvarma og endurnýtanlega orku. Jarðvarmi hefur alltaf heillað mig og öll þessi efni sem koma úr jörðinni. Mér fannst skrítið að þau væru ekki nýtt í einhverja framleiðslu og ákvað að skoða nánar hvort hægt væri að nota þessi efni eitthvað. Þá datt ég niður á rannsóknir á áhrifum kísils á líkamann. Þær sýna flestar mjög jákvæð áhrif og er kísill talinn nauðsynlegur líkama okkar til að styrkja bandvef, en hann er að finna í húð, beinum, brjóski, liðum og æðakerfi svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma var Burkni að skoða möguleika á hreinsun á jarðhitakísli þannig að við ákváðum ásamt leiðbeinendum okkar að stofna fyrirtækið og rannsaka þetta betur,“ lýsir Fida.

GeoSilica hlaut verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóði árið 2013 sem gerði þeim Fidu og Burkna kleift að halda áfram með verkefnið og þróa vöru sem sett var á markað í fyrra en það er hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli.

Fida með tveimur eldri dætrunum. Hún kennir þeim að vera stoltar af því hverjar þær eru.
Útrás í pípunum

Fida var ekki komin með nóg af menntabrautinni og fór því í MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík sem hún stundaði samhliða vinnu. „Ég ákvað að fara í þetta nám þar sem ég hafði tæknifræðilegan bakgrunn en vissi lítið um viðskipti og markaðsfræði, hvernig ætti að reka fyrirtæki og koma því á framfæri. Ég lærði mikið um hvernig á að stofna fyrirtæki og gera samninga við aðila og nýtti mér það við stofnun fyrirtækisins en öll verkefnin sem ég gerði í náminu gerði ég fyrir geoSilica.“

Stefnt er að útrás fyrirtækisins en umræður við erlenda aðila um að selja vöruna í Þýskalandi og á Indlandi eru langt komnar. „Við förum til Indlands í lok sumars til að markaðssetja vöruna þar en aðilar þar höfðu samband við okkur og vildu fá vöruna.“

Neikvæða umræðan særir

Fida býr ásamt eiginmanni sínum, Jóni Kristni Ingasyni viðskiptafræðingi, og þremur dætrum þeirra, Watan Amal, Ragnheiði Tahrir og Valgerði Asalah, á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar er fyrirtæki Fidu einnig til húsa og fjölskyldunni líður vel á Suðurnesjum. „Þetta er flott samfélag sem er að byggjast hér upp. Flestir þekkjast og eru saman í skóla eða vinna á svæðinu. Við verðum örugglega alltaf hér á Suðurnesjum og hér er bjart fram undan.“

Umræða um innflytjendur hefur aukist að undanförnu og er að mörgu leyti orðin neikvæðari. Þessa neikvæðni á Fida mjög erfitt með að umbera og tekur hana afar nærri sér. Hún tekur sem dæmi þegar mörg neikvæð ummæli um litarhátt Unnsteins Manuels tónlistarmanns voru látin falla á dögunum þegar hann kynnti stigagjöf Íslands í Eurovision-söngvakeppninni.

„Unnsteinn er flottur strákur sem er búinn að leggja mikið til samfélagsins og við ættum að vera stolt af honum. Í staðinn er ráðist á hann, ég veit að þetta er lítill minnihluti sem hagar sér svona og sem betur fer endurspeglar hann ekki meirihluta samfélagsins en það er mjög erfitt að horfa á þetta,“ segir Fida með grátstafinn í kverkunum. „Ég finn ekki persónulega fyrir fordómum en þegar maður opnar Facebook eða kveikir á útvarpi þá er þessi neikvæða umræða til staðar. Börnin mín eru það lítil ennþá, sú elsta er tíu ára, að þau finna ekki fyrir þessu. Ég vona að þetta breytist og þessi umræða verði ekki lengur til staðar þegar þær verða stórar og að þær þurfi ekki að hlusta á þetta rugl,“ segir Fida.

Fida ásamt yngstu dóttur sinni, Valgerði Asalah.
Heldur í upprunann

Hún segir þau hjónin reyna að vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín og að hana langi til að breyta umræðunni sem sé í gangi í þjóðfélaginu. „Mig langar að sýna fólki að það megi ekki alhæfa. Þó fólk komi annars staðar frá þarf það ekki að vera eitthvað minniháttar. Ef við fáum öll jöfn tækifæri gætum við orðið besta útgáfan af sjálfum okkur. Ég reyni að fara í gegnum lífið á mínum eigin forsendum en ekki annarra.“

Fida er stolt af uppruna sínum og kennir dætrum sínum að vera það líka. Hún hefur einu sinni farið til Palestínu eftir að hún flutti til Íslands en hún heldur góðu sambandi við fjölskyldu sína þar, föður sinn og frænkur.

„Mér finnst mikilvægt að börn fái að læra menningu og mál beggja foreldra. Ég elda arabískan mat heima og horfi á arabískt sjónvarp. Ég tala íslensku við börnin mín en ég les fyrir þau á arabísku og þau fara í helgarskóla þar sem kennd er arabíska og önnur móður­mál tvítyngdra barna. Ég tala við stelpurnar mínar um hvaðan ég kem og hvernig það var að alast þar upp og hve stolt ég sé af því að vera þaðan. Það skiptir ekki máli hvaðan úr heiminum maður er, þetta er ég og ég er svona í dag af því að ég kem þaðan. Ég reyni að taka það besta úr báðum menningarheimum og þær munu bara að græða á því í framtíðinni,“ segir Fida og brosir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×