Enski boltinn

Stolið frá enskum úrvalsdeildarleikmanni á meðan hann var að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Wanyama í leiknum á móti Aston Villa.
Victor Wanyama í leiknum á móti Aston Villa. Vísir/Getty
Victor Wanyama, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Southampton, varð fyrir óskemmtilegri lífsreynslu þegar hann kom til sín heima eftir leik á móti Aston Villa á mánudagskvöldið.

Á meðan Victor Wanyama spilaði leikinn í beinni á Sky Sports og Stöð 2 Sport 2 þá brutust bíræfnir þjófar inn á heimili hans.

Meðal þess sem þjófarnir komust yfir var árituð treyja frá Andres Iniesta sem Wanyama fékk þegar hann mætti Iniesta í Meistaradeildinni sem leikmaður Celtic.

Þjófarnir tóku einnig með sér þrjú sjónvörp, ýmiss raftæki og húsgögn, 60 þúsund pund í peningum og síðast en ekki síst eitt stykki Range Rover. Bíllinn hans fannst seinna í London í næstum því 130 kílómetra fjarlægð.

Hinn 23 ára gamli Victor Wanyama býr í raðhúsi og lögreglunni þótti það mjög furðulegt að nágrannar hans hafi ekki orðið varir við neitt.

Victor Wanyama hefur skorað 3 mörk í 14 leikjum með Southampton í ensku úrvalsdeildinni. Southampton keypti hann á 12,5 milljónir frá Celtic árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×