Körfubolti

Stólarnir búnir að finna nýjan Kana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hill reynir hér að verjast Jabari Parker, þáverandi leikmanni Duke og núverandi leikmanni Milwaukee Bucks í NBA-deildinni.
Hill reynir hér að verjast Jabari Parker, þáverandi leikmanni Duke og núverandi leikmanni Milwaukee Bucks í NBA-deildinni. vísir/getty
Tindastóll var ekki lengi að finna eftirmann Darren Townes sem var leystur undan samningi á föstudaginn. Þetta kemur fram á Feykir.is.

Nýi Kaninn heitir Jerome Hill en hann mun taka slaginn með Tindastóli í Domino's deildinni í vetur.

„Bindur stjórn KKD miklar vonir við það að Jerome Hill sé sá leikmaður sem félagið hafi verið að leitast eftir,“ sagði Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, í samtali við Feyki.

Hill er 23 ára gamall 1,96 metra hár framherji sem lék með Gardner-Webb háskólanum í Bandaríkjunum.

Á lokaári sínu í skólanum var Hill með 18,8 stig, 10,1 frákast og 2,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Tindastóll komst alla leið í úrslit Domino's deildarinnar í fyrra þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir KR.

Stólarnir tefla fram mjög svipuðu liði og í fyrra en það er kominn nýr maður í brúna; Finninn Pieti Piokola en hann tók við þjálfarastarfinu af Spánverjanum Israel Martin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×