Innlent

Stólar rákust saman í lyftu í Bláfjöllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Stóllinn rann á vírnum og lenti á næsta stól fyrir aftan.
Stóllinn rann á vírnum og lenti á næsta stól fyrir aftan. Vísir/Sindri Reyr
Stólalyftunni Gosa í Bláfjöllum var lokað nú síðdegis eftir að einn stólanna losnaði á vírnum og rann aftur á annan stól. Framkvæmdastjóri Skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu segir fáa hafa verið í lyftunni þegar stóllinn rann og engan hafi sakað.

Atvikið átti sér stað um kl. 18 þegar starfsmenn voru nýbúnir að færa stóla til á lyftunni, að sögn Magnúsar Árnasonar, framkvæmdastjóra Skíðasvæðanna. Stólarnir eru reglulega færðir til á virnum og segir Magnús að þeir renni stundum til ef þeir hafa ekki verið hertir nógu vel eða festingar brotna. Það komi hins vegar yfirleitt í ljós þegar lyftan er látin rúlla af stað mannlaus til að byrja með.

Fáir voru í lyftunni þegar stóllinn rann til. Enginn sat í stólnum sem rann, né stólnum fyrir aftan sem stóllinn rann á.

Magnús leggur áherslu á að enginn hafi verið í hættu þegar stóllinn rann. Starfsmenn hans segi að stóllinn hafi ekki verið á mikilli ferð þegar hann lenti á stólnum fyrir aftan. Hefði einhver setið í honum hefði hann auðveldlega getað stöðvað stólinn rennandi með fótunum.

Þá hafi ekki verið nein hætta á að stóllinn losnaði af vírnum þó að hann hafi runnið aftur á honum.

Stólalyftan verður lokuð það sem eftir lifir dags. Farið verður aftur yfir hana á morgun til þess að hún verði tilbúin fyrir helgina. Aðrar lyftur í Bláfjöllum eru enn í fullum gangi, að sögn Magnúsar.

Stólarnir í lyftunni vega um 100 kíló að sögn Magnúsar. Sá sem rann var hins vegar ekki á mikilli ferð.Vísir/Sindri Reyr



Fleiri fréttir

Sjá meira


×