Erlent

Stökk úr 42 kílómetra hæð og sló met Baumgartners

Atli Ísleifsson skrifar
Alan Eustace, þekktur tölvunarfræðingur og háttsettur starfsmaður Google, stökk í dag úr loftbelg með fallhlíf úr um 42 kílómetra hæð. Eustace sló þar með met Austurríkismannsins Felix Baumgartner sem hann setti fyrir um tveimur árum þar sem hann stökk úr rúmlega 39 kílómetra hæð.

Eustace hélt upp í sérútbúnum helíumfylltum loftbelg frá yfirgefinni flugbraut í Roswell í Nýju-Mexíkó í morgun og tók ferðin upp rúmar tvær klukkustundir.

Í frétt New York Times segir að Eustace hafi mest náð 1.323 kílómetra hraða á leiðinni niður og þar með rofið hljóðmúrinn.

Eustace var um 15 mínútur á leiðinni niður og segir ferðina hafa verið ótrúlega. „Þetta var svo fallegt. Maður gat séð myrkrið í geimnum og lög gufuhvolfsins sem ég hef aldrei séð áður.“

Alan Eustace.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×