Enski boltinn

Stoke fær Bojan Krkic frá Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bojan var í láni hjá Ajax á síðustu leiktíð.
Bojan var í láni hjá Ajax á síðustu leiktíð. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Stoke gekk í dag frá fjögurra ára samning við spænska framherjann Bojan Krkic en Stoke kaupir hann frá Barcelona fyrir óuppgefna upphæð

Bojan er uppalinn hjá Barcelona og kom upp í gegnum hina virtu La Masia-akademíu Börsunga. Hann spilaði fyrsta leikinn sinn fyrir Katalóníurisann aðeins 17 ára gamall.

Hann þótti mikið efni og skoraði 26 mörk í 104 deildarleikjum fyrir Barcelona frá 2007-2011, en var svo seldur til Roma. Þar spilaði hann eina leiktíð, en var svo lánaður til AC Milan tímabilið 2012/2013.

Barcelona ákvað að nýta sér ákvæði í samningi hans síðasta sumar og kaupa leikmanninn til baka fyrir 13 milljónir evra. Hann spilaði þó ekki leik fyrir Börsunga heldur var hann lánaður til Kolbeins Sigþórssonar og félaga í Ajax.

Bojan skoraði fjögur deildarmörk í 24 leikjum er Ajax varð meistari í Hollandi fjórða árið í röð. Luis Enríque, nýr þjálfari Barcelona, vill þó ekki halda honum hjá félaginu og er Stoke nýr áfangastaður þessa 23 ára gamla leikmanns.

„Kaupin á Bojan auk hinna sem við höfum fengið í sumar undirstrikar þær framfarir sem við höfum tekið sem félag,“ segir Tony Scholes, framkvæmdastjóri Stoke á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×