Erlent

Stofnandi I Fucking Love Science segist hafa hafnað milljarða tilboði í síðuna

Birgir Olgeirsson skrifar
Elise Andrew.
Elise Andrew. Vísir/Twitter
Stofnandi Facebook-síðunnar IFuckingLoveScience segist hafa hafnað 30 milljóna dollara tilboði, um 3,7 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, í síðuna.

Stofnandinn er hin 26 ára gamla EliseAndrew sem stofnaði síðuna í mars árið 2012. Um það bil 22 milljónir Facebook-notenda fylgja síðunni eftir og hefur uppgangur hennar  verið ævintýri líkastur.

Andrew hefur ekki veitt viðtöl í nokkur ár en steig fram á Twitter síðastliðinn laugardag til að segja frá andlegum veikindum sínum í tilefni af alþjóða geðheilbrigðisdeginum. Þar sagði hún til að mynda að hún hefði fengið 30 milljóna dollara tilboð í IFuckingLoveScience í fyrra.

„Og það var svo freistandi. En ekki út af peningnum.“

Hún tilgreindi ekki hver bauð þessa upphæð í síðuna en sagði þetta tilboð hafa verið freistandi því þá hefði hún losnað undan því áreiti sem fylgir henni.

Í röð tísta greindi hún frá því að hún væri haldin hárplokkunaráráttu, trichotillomaníu, og sagðist hún hafa verið greind með þunglyndi, jaðar persónuleikaröskun og geðhvarfasýki. Hún sagðist ekki átta sig á því hvers vegna hún hefði ákveðið að opinbera þessi veikindi sín, hún hefði aldrei tjáð sig um þau áður, en sagði á móti að ef hún skammaðist sín fyrir þau, þá væru góðar líkur á að einhver annar gerði það líka.

Hún sagði að lokum að það allra versta við að vera opinber persóna sé ókunnugir geti skáldað nánast hvað sem er um hana. Hún sagði veikindin gera sig geðveika, en internetið minni hana á að sumt fólk sé miklu verra en hún sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×