Skoðun

Stofnanavætt ofbeldi gagnvart fötluðum konum

Helga Baldvins og Bjargardóttir skrifar
Kynbundið ofbeldi er ein stærsta heilsufarsógn kvenna hvar sem er í heiminum. Fatlaðar konur er í enn meiri áhættu á að verða fyrir slíku ofbeldi. Er það eðlileg afleiðing þess að vera með skerðingu eða sjúkdóm eða er eitthvað í umhverfinu eða menningunni sem ýtir undir að sumir hópar samfélagsins verða fyrir meira ofbeldi en aðrir?

Í maí á þessu ári buðu Stígamót Kerstin Kristensen hingað til lands að fjalla um ofbeldi gagnvart fötluðum konum. Fyrirlestrar hennar voru áhrifaríkir og stuðandi. Hún sagði okkur hvernig kona með sykursýki var stundum látin velja á milli þess að totta manninn sinn eða fá adrenalín sprautuna sína. Hann beitti hana kynferðisofbeldi með því að nýta sér sjúkdóm hennar svo hún þurfti að velja milli lífs og dauða. Kerstin sagði okkur líka frá konunni sem var í hjólastól en var alltaf að lenda á spítala eftir að hafa hrasað um og dottið. Þegar maðurinn hennar, sem einnig var í hjólastól, féll frá, hætti konan skyndilega að lenda inn á spítala. Það datt engum í hug að fatlaður maður gæti verið að beita fatlaða konu sína ofbeldi.



Kerstin sýndi okkur einnig tvær stuttmyndir af fimm sem allar fjalla um mismunandi ofbeldi gagnvart ólíkum hópum af fötluðum konum. Þessar áhrifaríku stuttmyndir segja meira en mörg orð og eru til þess fallnar að vekja fólk til umhugsunar um stöðu fatlaðra kvenna í samfélaginu.

Ofbeldi snýst um misbeitingu valds. Ofbeldismenn njóta þess að hafa stjórn og niðurlægja aðra til að upphefja sjálfa sig. Við búum í samfélagi sem skapar kjöraðstæður fyrir ofbeldismenn til að herja á og níðast á fötluðum konum. Skortur á nauðsynlegri þjónustu, og skortur á því að hafa eitthvað um það að segja hver veitir þjónustuna, hvenær eða hvernig, býr til valdaójafnvægi sem þarf ekki að vera til staðar.

Í kvöld kl. 20:00 mun Stígamót standa fyrir bíókvöldi þar sem allar fimm stuttmyndirnar verða sýndar. Sýningartíminn er um hálftími og verður boðið upp á umræður eftir hverja mynd.

Verið hjartanlega velkomin!




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×