Innlent

Stofnaði fjórum sinnum til slagsmála á árshátíð MK

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan þurfti tvívegis að mæta á árshátíð MK í gær.
Lögreglan þurfti tvívegis að mæta á árshátíð MK í gær. Vísir/Kolbeinn Tumi
Lögregla var tvívegis kölluð að HK heimilinu í Kópavogi í nótt þar sem árshátíð Menntaskólans í Kópavogi fór fram. Fyrst var tilkynnt um rúðubrot og fékk dyravörður glerbrot í andlitið og leitaði sér aðstoðar á slysadeild.

Lögreglan veit hver braut rúðuna og verður hann yfirheyrður síðar vegna málsins að því er segir í tilkynningu. Í síðara skiptið óskuðu dyraverðir eftir því að sautján ára gamall piltur yrði fjarlægður en hann var þá búinn að stofna fjórum sinnum til slagsmála á staðnum.

Pilturinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann var vistaður í fangageymslu sökum ölvunarástands.

Skömmu síðar um nóttina var ökumaður bifreiðar handtekinn í Grafarvogi en hann hafði ekið á tré í hverfinu. Þegar lögregla kannaði málið reyndist maðurinn hafa verið sviptur ökuréttindum fyrir nokkru og í samtali við hann vaknaði grunur um að hann væri að selja fíkniefni. Farið var í húsleit heim til hans þar sem um þrjátíu grömm af ætluðum fíkniefnum fundust.

Þar að auki barst lögreglu tilkynning um heimilisofeldi og líkamsárás í húsi í Grafarvogi. Þar var húsmóðir handtekin, sem veist hafði að dóttur sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×