Innlent

Stöðumælasektir hækka og gjald tekið við bílastæðin við Sólfarið

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Bílastæðin við Sólfarið verða gerð gjaldskyld.
Bílastæðin við Sólfarið verða gerð gjaldskyld. vísir/hanna
Samþykki borgarráð Reykjavíkur í dag tillögu framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs, Kolbrúnar Jónatansdóttur, um gjaldskrárhækkun vegna stöðumælasekta, munu sektirnar hækka verulega. Þá verður einnig tekið fyrir nýtt gjaldsvæði við Sólfarið en bílastæðin við verk Jóns Gunnars Árnasonar hafa hingað til verið gjaldfrjáls.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar tók gjaldskrárbreytingarnar fyrir á fundi sínum í gær og samþykkti að vísa þeim til borgarráðs sem mun fjalla um málið í dag. „Þetta er í takti við það sem er rætt víða um land, að það sé skynsamlegt að taka gjald á ferðamannastöðum,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, spurður um bílastæðin við Sólfarið. Hann bendir á að víða um land sé tekið gjald á bílastæðum við vinsæla ferðamannastaði. „Við erum og höfum verið framarlega þegar kemur að svona.“

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að svæðið í miðbæ Reykjavíkur sé almennt gjaldskylt og því komi þessi breyting honum ekki á óvart. „Það hafa bílar verið að safnast þarna saman yfir allan daginn og valdið töluverðum vandræðum.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við afgreiðslu um gjaldskrárhækkunina um stöðumælasektir. „Ástæðan fyrir þessum hækkunum er sú, samkvæmt framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs, að fólk var farið að leika þann leik að taka bara sektina. Láta bílinn standa allan daginn því það var ódýrara en að borga í stöðumælinn.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×