Íslenski boltinn

Stoðsendingakóngurinn til Sarpsborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jónsson.
Kristinn Jónsson. Vísir/Stefán

Kristinn Jónsson, besti leikmaður Pepsi-deildar karla 2015 að mati Fréttablaðsins, hefur yfirgefið Breiðblik og samið við norska úrvalsdeildarliðið Sarpsborg 08. Þetta kemur fram á Blikar.is og á heimasíðu norska liðsins.

Kristinn sem er 25 ára gamall vinstri bakvörður hefur spilað 140 leiki með Blikum í úrvalsdeild karla og skorað í þeim 9 mörk.

Kristinn gaf flestar stoðsendingar af öllum leikmönnum Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili eða alls níu í þessum 22 leikjum. Hann varð þá fyrsti bakvörðurinn sem nær því.  

Þetta verður í annað skiptið sem Kristinn yfirgefur Blika og fer út í atvinnumennsku en hann var lánaður til sænska liðsins Brommapojkarna tímablið 2014.

Nú mun Kristinn hinsvegar reyna fyrir sér hjá norska úrvalsdeildarliðinu Sarpsborg 08 sem hefur verið í efstu deild síðan árið 2012 og lenti í 11. sæti á síðasta tímabili.

Sarpsborg 08 vann tvo af þremur síðustu leikjum sínum og var þremur stigum á undan Haugesund.

Kristinn Jónsson var í landsliðshópnum hjá Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímssyni í ár og ætti með þessum félagsskiptum að auka líkurnar á því að hann verði með á EM næsta sumar.

Blikar tala á heimasíðu sinni um að það sé mikil blóðtaka fyrir Blikaliðið að missa Kristinn og það eru orð að sönnu.  Kristinn átti frábært tímabil og var lykilmaður í vörn sem sókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×