Skoðun

Stjórnvöld verða að sýna að þau meta menntun

Sigrún Lína Sigurðardóttir skrifar
Ég er sjúkraþjálfari og vinn á Landspítalanum Hringbraut. Á hverjum degi sinnum við, ég og samstarfsfólk mitt, verkefnum sem miða að því að tryggja endurhæfingu bráðveikra einstaklinga svo þeir komist sem allra fyrst út í samfélagið og þurfi ekki að liggja lengi á spítala. Þetta eru áhugverð og krefjandi störf bæði líkamlega og andlega sem krefjast sérfræðimenntunar, að lágmarki fjögurra ára háskólamenntunar.

Krafa okkar félaga í Bandalagi háskólamanna í þeirri kjarabaráttu sem við stöndum nú í við stjórnvöld er einfaldlega að menntun verði metin til launa. Í því felst annars vegar að þegar búið er að taka tillit til þess kostnaðar sem við höfum þurft að leggja út til að sækja okkur menntun þá verði kaupmáttur okkar ekki lakari en ef við hefðum ekki gengið menntaveginn. Hins vegar viljum við að stjórnvöld sýni að þau meti menntun og vilji að menntað starfsfólk sæki í störf hjá ríkinu.

Það er dýrt að mennta sig, bæði á meðan á námi stendur og síðan þegar kemur að því að greiða af þeim skuldum sem safnast hafa upp á námstímanum. Sem dæmi má nefna fara 3 vikna laun á ári hjá hverjum félaga í BHM í að greiða af námslánum. Það gefur því auga leið að því felst ekki góð fjárfesting fyrir háskólamenntaða að starfa hjá ríkinu ef það býður ekki betri kjör en í boði eru.

Framundan eru kynslóðaskipti hjá ríkinu og því verður enn mikilvægara á næstu árum að ríkið geti boðið upp á laun sem eru samkeppnishæf við almenna vinnumarkaðinn.

Nú stendur það upp á stjórnvöld að svara því hvort þau vilji laða fólk með sérfræðiþekkingu til starfa hjá ríkinu og stofnunum þess. Þau geta svarað þessari spurningu með jákvæðum hætti með því að ganga til sanngjarnra samninga við BHM í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir

Höfundur er sjúkraþjálfari BSc. á Landspítalanum Hringbraut.




Skoðun

Sjá meira


×