Innlent

Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða strax

Svavar Hávarðsson skrifar
Bryndís Snæbjörnsdóttir
Bryndís Snæbjörnsdóttir
„Forræðishyggja og skert sjálfræði er því miður daglegur veruleiki hjá allt of mörgum einstaklingum með þroskahömlun og við höfum barist fyrir því um árabil að við því verði brugðist með viðeigandi hætti og mögulegum úrræðum,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, spurð um nýja rannsókn sem sýnir hversu mjög sjálfræði fólks með þroskahömlun er skert og Fréttablaðið sagði frá á föstudag.

Rannsóknin sýnir svart á hvítu að skerðing sjálfræðis nær til allra daglegra athafna, fjármála, búsetu og persónulegra sambanda við aðra.

Bryndís bendir á baráttumál Þroskahjálpar sem er að húsnæði og þjónusta verði aðskilin og að fólk hafi val um með hverjum það býr, en sé ekki skikkað til að búa í þar til gerðu húsnæði „með fólki sem það kærir sig jafnvel alls ekki um að búa með“.

Í desember 2010 var samþykkt á Alþingi reglugerð 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili. Samkvæmt reglugerðinni á fólk að hafa val um hvar það býr og með hverjum.

„En því miður eru allt of mörg dæmi um að svo sé alls ekki. Okkur finnst því mjög brýnt að skoðað verði hver er framfylgd þessarar mikilvægu reglugerðar og að ríki og sveitarfélög tryggi að fatlað fólk njóti í raun þeirra lagalegu réttinda sem þar er mælt fyrir um,“ segir Bryndís og bætir við að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé jafnframt kveðið á um þennan rétt á mjög afgerandi hátt.

„Leiðarstefið í samningnum er réttur fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og fá að taka ákvarðanir um eigið líf. Við eigum enn mjög langt í land með að uppfylla þessi ákvæði. Það er alveg ljóst að það þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting í samfélaginu til að þessi markmið samningsins verði uppfyllt,“ segir Bryndís.

„Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að viðurkenna þennan rétt og jafnhliða því að tryggja nægilegt fjármagn til þjónustu við fatlað fólk. Fyrr verður ekki hægt að uppfylla þessi sjálfsögðu mannréttindi. Fyrr er alls ekki hægt að líta svo á að manngildi fólks með þroskahömlun njóti viðurkenningar og virðingar í samfélaginu. Þetta þurfa stjórnvöld að horfast í augu við og grípa til nauðsynlegra aðgerða með lögum og reglum, fjárveitingum, stjórnsýsluframkvæmd og skilvirku eftirliti með framkvæmdinni.“

Höfum ekki fullgilt samninginn

• Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (CRPD)  30. mars 2007. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra.

• Af þeim 155 aðilum sem undirrituðu samninginn hafa 132 aðilar fullgilt hann. Í þeim hópi eru Danmörk, Svíþjóð og  Noregur ásamt flestum öðrum Evrópuþjóðum.

• Alþingi samþykkti hinn 11. júní 2012 framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks. Á grundvelli hennar hefur innanríkisráðuneytið leitt vinnu samstarfsnefndar ráðuneyta við að undirbúa fullgildingu samningsins.


Tengdar fréttir

Í aðgerð án nauðsynlegra upplýsinga

Mannréttindi fólks með þroskahömlun eru verulega skert þar sem sjálfræði þeirra í daglegu lífi er mjög takmarkað. Nýlegar ófrjósemisaðgerðir á konum sem gera sér ekki grein fyrir að aðgerðin er varanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×