Innlent

Stjórnvöld brugðust við fréttum erlendra miðla af umdeildu hvaldrápi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fulltrúar Sea Shepard voru hér á landi á dögunum að safna myndefni.
Fulltrúar Sea Shepard voru hér á landi á dögunum að safna myndefni. Skjáskot
Íslensk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að leiðrétta umfjöllun erlendra miðla um umdeilt hvaldráp Hvals hf. í liðinni viku. Sérfræðingar telja ýmist að um friðaða steypireyð eða blending sé að ræða.

Margir af stærstu fjölmiðlum heims hafa fjallað um málið af kappi og hefur fúkyrðum rignt yfir Íslendinga á athugasemdakerfum vefmiðlanna. María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá utanríkisráðuneytinu, segir að ráðuneytið hafi ekki farið varhluta af þessari umræðu. Fjölmargar fyrirspurnir hafi borist ráðuneytinu um hvaldrápið, sem svarað hafi verið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

María segir starfsmenn utanríkisráðuneytins fylgjast grannt með erlendri fjölmiðlaumfjöllun um Ísland; ekki síst í enskum, þýskum og frönskum miðlum. Allur gangur sé þó á því hvort íslensk stjórnvöld hafi frumkvæði að því að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri. Ekki séu til neinir formlegir verkferlar um það hvenær og hvernig skuli bregðast við umfjöllunum.

Sjá einnig: Forsætisráðherra telur óskynsamlegt að halda hvalveiðum áfram

María segir hins vegar að það hafi verið talið nauðsynlegt í tilfelli hvaldrápsins. Utanríkisráðuneytið hafi í haft frumkvæði að því að hafa samband við fjölda „stórra miðla“ úti í heimi og senda þeim upplýsingar sem í „flestum tilfellum voru teknar inn í umfjöllunina.“

Ekki þarf að leita lengi til að sjá hvað fólst í þeim upplýsingum. Fjölmiðlarisar á borð við CNNTelegraph og breska ríkisútvarpið birta allir sömu viðbrögð íslenskra stjórnvalda: Málið sé tekið alvarlega, steypireyðar séu friðaðar samkvæmt íslenskum lögum og að verið sé að bíða eftir niðurstöðum úr erfðagreiningu.

Eins og gefur að skilja er þetta ekki í fyrsta sinn sem utanríkisráðuneytið blandar sér í erlenda fjölmiðlaumfjöllun. Það gerði ráðuneytið til að mynda í tengslum við ríkisstjórnarslit Sjálfstæðisflokks, Bjartar framtíðar og Viðreisnar haustið 2017. Þá sendi ráðuneytið 11 alþjóðlegum miðlum beiðni um að leiðrétta fréttir þeirra af stjórnarslitunum, sem sagðar voru litast af „staðreyndavillum og afbökunum“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×